Íslenski boltinn

Axel Óskar farinn frá KR og velur úr til­boðum

Sindri Sverrisson skrifar
Axel Óskar Andrésson er farinn frá KR.
Axel Óskar Andrésson er farinn frá KR. Mynd: KR

Miðvörðurinn sterkbyggði Axel Óskar Andrésson og KR hafa komist að sameiginlegri ákvörðun um að hann yfirgefi félagið.

Þetta staðfesti Axel Óskar við Vísi í dag. Hann gekk í raðir KR í mars, þegar hann sneri heim til Íslands úr atvinnumennsku, og skrifaði þá undir samning sem gilda átti til loka tímabilsins 2026.

Riftunarákvæði var hins vegar í samningnum sem gerði kleift að Axel yfirgæfi Vesturbæinn nú þegar leiktíðinni er lokið.

Axel segist í samtali við Vísi þegar kominn með nokkur tilboð frá félögum hérlendis. Fastlega má búast við því að eitt þeirra sé úr Mosfellsbænum, þar sem hann er uppalinn, en Afturelding spilar í fyrsta sinn í efstu deild á næstu leiktíð.

Þá kveðst Axel einnig hafa fengið eitt tilboð erlendis frá.

Axel, sem er 26 ára gamall, hafði leikið í tíu ár erlendis þegar hann kom til KR í mars. Fyrstu árin lék hann í Englandi en svo einnig í Noregi, Lettlandi og Svíþjóð. Þá á hann að baki 2 A-landsleiki og 46 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Axel lék 21 deildarleik og tvo bikarleiki fyrir KR í sumar og skoraði samtals fjögur mörk. Hann kom ekkert við sögu á lokakafla mótsins en síðasti leikurinn hans í KR-treyjunni var 16. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×