Fótbolti

Sverrir fékk upp­á­halds úr­slit miðvarðarins

Sindri Sverrisson skrifar
Sverrir Ingi Ingason er lykilmaður í varnarleik Panathinaikos.
Sverrir Ingi Ingason er lykilmaður í varnarleik Panathinaikos. Getty/Peter Lous

Miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason var á sínum stað í vörn Panathinaikos í dag þegar liðið vann sigur á Volos í grísku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Stundum er sagt að 1-0 sigur sé draumaniðurstaða varnarmanna og þannig fór leikurinn í dag. Eina markið gerði Filip Djuricic eftir tæplega korters leik.

Verkefnið varð svo einfaldara fyrir Panathinaikos þegar heimamenn misstu Pavlos Korrea af velli í lok fyrri hálfleiks. Hann hafði reyndar bara verið inni á vellinum í rúmar tuttugu mínútur, eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Panathinaikos fékk kjörið tækifæri til að bæta við marki á 85. mínútu en Fotis Ioannidis klúðraði þá vítaspyrnu.

Sverrir lék allan leikinn en Panathinaikos saknar enn Harðar Björgvins Magnússonar sem hefur verið lengi frá keppni vegna meiðsla.

Eftir sigurinn er Panathinaikos með 13 stig í 8. sæti deildarinnar en Volos er með 10 stig í 11. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×