Fótbolti

Gísli og Birnir komnir úr fallsæti og Jón Daði í fyrsta sinn með Wrexham

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Eyjólfsson og félagar í Halmstad hafa unnið þrjá síðustu leiki sína í röð.
Gísli Eyjólfsson og félagar í Halmstad hafa unnið þrjá síðustu leiki sína í röð. hbk.se

Gísli Eyjólfsson var í byrjunarliði Halmstad í dag þegar liðið vann sinn þriðja leik í röð í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Halmstad er þar með komið upp úr fallsætunum og í góð mál fyrir lokaumferð deildarinnar.

Gísli lék fram á 77. mínútu í 1-0 sigrinum gegn Djurgården í dag. Birnir Snær Ingason varð hins vegar að sætta sig við að vera á varamannabekk Halmstad allan leikinn. Eina mark leiksins kom á 51. mínútu.

Eftir sigurinn er Halmstad með 33 stig, í góðum málum í 11. sæti deildarinnar, eftir að hafa verið í 14. sæti fyrir leikinn í dag. Fjórtánda sætið er þriðja neðsta sæti deildarinnar og þarf liðið sem endar þar að fara í umspil við lið úr næstefstu deild, um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Jón Daði Böðvarsson spilaði sínar fyrstu mínútur fyrir Wrexham í dag, þegar hann kom inn á sem varamaður á 59. mínútu í bikarleik gegn Harrogate Town á útivelli.

Wrexham var 1-0 undir þegar Jón Daði kom inn á en það reyndust einnig lokatölur leiksins.

Í Hollandi lék landsliðskonan Amanda Andradóttir allan leikinn í 3-1 sigri Twente gegn Utrecht. Twente er þá með átta stig í 4. sæti en fjórum stigum á eftir Utrecht og fimm stigum á eftir efstu liðunum, PSV og Ajax, sem hafa leikið einum leik meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×