Inter var mun betri aðilinn í leiknum en gekk illa að koma boltanum í markið. Henrikh Mkhitaryan virtist reyndar hafa komið liðinu yfir í upphafi seinni hálfleiks en markið var dæmt af vegna rangstöðu, eftir myndbandsskoðun.
Inter náði hins vegar að komast yfir á 65. mínútu þegar Lautaro Martinez skallaði boltann í netið, eftir fyrirgjöf frá Federico Dimarco.
Venezia þurfti því jöfnunarmark og var Mikael Egill settur inn á þegar korter var til leiksloka.
Annar varamaður, Marin Sverko, náði svo að skora rétt áður en flautað var til leiksloka, eða á sjöundu mínútu uppbótartíma. Eftir myndbandsskoðun var markið hins vegar á endanum dæmt af, vegna hendi, og Inter gat því fagnað eins marks sigri.
Inter komst með sigrinum upp um tvö sæti, í 2. sæti deildarinnar, og er nú með 24 stig eftir 11 leiki, stigi á eftir toppliði Napoli.
Venezia er hins vegar komið í þriðja neðsta sæti, fallsæti, með átta stig eða tveimur stigum meira en botnlið Genoa sem á leik til góða.