Fótbolti

Ás­laug Munda með mark og stoð­sendingu fyrir framan mömmu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir gengur inn á völlinn ásamt móður sinni Jóneyju Jónsdóttur.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir gengur inn á völlinn ásamt móður sinni Jóneyju Jónsdóttur. @harvardwsoccer

Íslenska knattspyrnukonan Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir fékk góða heimsókn frá Íslandi um helgina og hélt upp á það með viðeigandi hætti í sigurleik Harvards skólans í bandaríska háskólafótboltanum.

Áslaug Munda var ein af fimm leikmönnum Haward skólans sem voru heiðraðar á kveðjukvöldi leikmanna sem útskrifast á þessari leiktíð.

Af því tilefni komu umræddir leikmenn inn á völlinn í fylgd fjölskyldumeðlima sinna.

Áslaug Munda fékk heimsókn frá móður sinni Jóneyju Jónsdóttur en þær gengu saman inn á völlinn veifandi íslenska fánanum.

Harvard var þarna að spila við Yale og unnu þær leikinn 3-1 sem tryggði þeim sæti í úrslitakeppni Ivy deildarinnar. Sigurvegari leiksins komst þangað þar sem fjórir skólar spila um titilinn.

Áslaug var bæði með mark og stoðsendingu í leiknum mikilvæga.

Yale komst í 1-0 en Harvard jafnaði metin. Áslaug átti stoðsendinguna í öðru markinu og skoraði síðan þriðja markið úr vítaspyrnu.

Þetta var sjöunda mark Áslaugar á þessu tímabili og fjórða stoðsendingin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×