Fótbolti

Mourinho þolir ekki tyrk­neska dómara: „Erum að berjast gegn kerfinu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho virkaði ryðgaður þegar hann renndi sér á hnjánum eftir sigurmark Fenerbahce gegn Trabzonspor.
José Mourinho virkaði ryðgaður þegar hann renndi sér á hnjánum eftir sigurmark Fenerbahce gegn Trabzonspor. getty/Huseyin Yavuz

José Mourinho, knattspyrnustjóri Fenerbahce, sagði tyrkneskum dómurum til syndanna eftir leikinn gegn Trabzonspor í gær og sagði að hann hefði ekki komið til Tyrklands ef hann hefði vitað hvernig dómgæslan þar sé.

Fenerbahce vann leikinn, 2-3, en Sofyan Amrabat skoraði sigurmarkið þegar tólf mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Mourinho fagnaði með því að hlaupa inn á völlinn og renna sér á hnjáum. Það tókst reyndar ekkert sérstaklega vel hjá þeim portúgalska og hann endaði á því að detta á grasið.

Þrátt fyrir sigurinn var Mourinho afar ósáttur eftir leik og gagnrýndi dómarana harðlega. Trabzonspor fékk tvær vítaspyrnur í leiknum, báðar eftir inngrip VAR-dómara, og þá taldi Mourinho sína menn svikna um víti fyrir sigurmarkið. 

„Ég kenni fólkinu hjá Fenerbahce sem fékk mig hingað um. Það sagði mér aðeins hálfan sannleikann. Það sagði mér ekki allan sannleikann því ef þau hefðu gert það hefði ég ekki komið. En með hálfan sannleikann og strákana mína berjumst við gegn andstæðingum og kerfinu,“ sagði Mourinho eftir leikinn.

Ekki lengur ósýnilegi maðurinn

Hann beindi svo talinu að dómaranum Oguzhan Cakir og VAR-dómaranum Atilla Karaoglan.

„Karaoglan var vakandi og gaf tvær vítaspyrnur sem dómarinn gaf ekki. Hann var hins vegar að fá sér tyrkneskt te þegar við áttum að fá klárt víti sem hann gaf ekki,“ sagði Mourinho.

„Maður leiksins var Atilla Karaoglan. Við sáum hann ekki en hann var dómarinn. Dómarinn var bara lítill strákur sem var á vellinum en alvöru dómarinn var Atilla Karoglan. Hann fór úr því að vera ósýnilegi maðurinn yfir í að vera mikilvægasti maðurinn á vellinum. Ég held ég tali fyrir hönd allra stuðningsmanna Fenerbahce þegar ég segi að við viljum hann ekki. Við viljum hann ekki sem VAR-dómara. Við viljum ekki sjá hann á vellinum, hvað þá í VAR-herberginu.“

Fenerbahce er í 2. sæti tyrknesku deildarinnar með 23 stig, fimm stigum á eftir toppliði Galatasaray.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×