Erlent

Dæmdur í fangelsi fyrir kóran­brennur

Atli Ísleifsson skrifar
Rasmus Paludan hefur sex sinnum verið dæmdur fyrir hatursorðræðu í Danmörku.
Rasmus Paludan hefur sex sinnum verið dæmdur fyrir hatursorðræðu í Danmörku. EPA

Dómstóll í Malmö í Svíþjóð hefur dæmt dansk-sænska hægriöfgamanninn Rasmus Paludan í fangelsi fyrir hatursorðræðu og fyrir að hafa kynt undir kynþáttahatur með því að hafa í tvígang brennt Kóraninn í Malmö fyrir um tveimur árum.

Dómstóllinn dæmdi Paludan í fjögurra mánaða fangelsi auk þess að greiða manni miskabætur. Sænskir fjölmiðlar segja að dómari hafi ákveðið að dæma Paludan í fangelsi þar sem hann hafi margoft áður hlotið dóm fyrir sambærileg brot í Danmörku.

Paludan var mikið í fréttum í tengslum við óeirðir sem brutust út víða í Svíþjóð í kjölfar þess að hann lýsti því yfir að hann myndi standa fyrir kóranbrennum víða um landið. Á einum slíkum viðburði í Malmö um páskana 2022 kom Paludan með röð ummæla um múslíma sem saksóknari mat sem svo að væri hatursorðræða.

Í september sama ár lét hann svo önnur ummæli falla um „araba og Afríkana“ sem saksóknari taldi einnig að flokkuðust sem hatursorðræða. Þá hafi Paludan einnig snúið sér að manni á einum viðburðinum og látið ýmis fúkyrði falla og var hann í morgun dæmdur til að greiða viðkomandi um 250 þúsund íslenskar krónur í miskabætur.

Þetta er fyrsta sinn sem sænskur dómstóll dæmir í máli um hvort að kóranbrennur flokkist sem hatursorðræða og hvort verið sé með þeim að kynda undir kynþáttahatur.


Tengdar fréttir

Bretar banna dönskum Kóran­brennu­manni að koma

Rasmus Paludan, stofnandi danska hægriöfgaflokksins Strangrar stefnu, fær ekki að koma til Bretlands. Hann ætlaði sér að brenna Kóraninn í bænum Wakefield í vikunni við upphaf föstumánaðar múslima.

Hand­tóku meinta íslamista sem vildu hefna fyrir Kóranbrennu

Sænska leyniþjónustan handtók fimm menn sem hún grunar um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk. Mennirnir eru sagðir hafa tengsl við Ríki íslams. Málið er eitt nokkurra sem sænsk yfirvöld segjast rannsaka í kjölfar umdeildra Kóranbrenna dansks hægriöfgamanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×