Myndirnar hér að neðan sýna hvernig röð af auglýsingaskjám á bakvið annað markið á Kópavogsvelli hefur fokið um koll og að því er virðist skemmst.

Talsvert hvassviðri var á höfuðborgarsvæðinu í nótt en nú hefur dregið úr vindi og má búast við að leikurinn fari fram við ágætar aðstæður, en hann hefst klukkan 14.30 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5 og í textalýsingu á Vísi.

Leikurinn er afar þýðingarmikill fyrir Víkinga sem vonandi hafa jafnað sig á því að missa Íslandsmeistaratitilinn í hendur heimaliðsins á Kópavogsvelli, Breiðabliks.
Borac er lægst skrifaða liðið sem Víkingar fengu heimaleik gegn í keppninni. Víkingar fengju 60 milljónir króna með sigri í dag, rétt eins og þegar þeir unnu frækinn sigur á Cercle Brugge í síðustu umferð.
En sigur í dag færi einnig langt með að koma Víkingum áfram á næsta stig keppninnar, í umspil um sæti í 16-liða úrslitum, sem væri hreint magnaður árangur.
Víkingar spila í Sambandsdeildinni fram til 19. desember en komist þeir í umspilið lengja þeir keppnistímabilið sitt enn frekar, og spila í því 13. og 20. febrúar.
