Fótbolti

Stóð á boltanum áður en hún sólaði and­stæðinginn upp úr skónum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Racheal Kundananji er dýrasta knattspyrnukona heims eftir að Bay FC keypti hana frá spænska félaginu Madrid CFF.
Racheal Kundananji er dýrasta knattspyrnukona heims eftir að Bay FC keypti hana frá spænska félaginu Madrid CFF. Getty/Lyndsay Radnedge

Knattspyrnukonan Racheal Kundananji er dýrasta knattspyrnukona heims og hún sýndi óvenjuleg og ótrúleg tilþrif í bandaríska kvennafótboltanum á dögunum. Í ljós kom að hún var að herma eftir götustrákum í Suður-Afríku.

Kundananji er frá Sambíu en spilar með Bay FC í bandarísku NWSL deildinni. Hún kom til bandaríska liðsins í febrúar frá Madrid CFF á Spáni og var þá dýrasta knattspyrnukona heims enda kostaði hún 862 þúsund dollara eða meira en 118 milljónir króna.

Kundananji er með fimm mörk og fjórar stoðsendingar í 21 leikjum á tímabilinu. Kundananji og félagar tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni með sigrinum á Houston Dash um síðustu helgi.

Kundananji skoraði tvö mörk í leiknum en það voru þó önnur tilþrif hennar sem vöktu mesta athygli.

Hún stóð þá á boltanum áður en hún sólaði andstæðinginn upp úr skónum. Atvikið má sjá hér fyrir neðan.

Kundananji ræddi þetta uppátæki sitt við ESPN.

„Ég var stundum að horfa á myndbönd frá Suður Afríku. Þetta voru leikir úr gettóunum þar sem þeir spila á velli þar sem er ekkert gras. Þeir taka upp á ýmsu í leikjum sinum,“ sagði Racheal Kundananji.

„Ég apaði þetta eftir þeim og hugsaði mér að prófa þetta einn daginn. Ég sagði síðan liðsfélögunum mínum fyrir leikinn um helgina að ég ætlaði að gera þetta í þessum leik,“ sagði Kundananji.

„Mig hafði lengi langað til að gera þetta ef við værum yfir í leik. Ég lét svo bara vaða,“ sagði Kundananji hlæjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×