Sport

Whoopi Goldberg stofnar sjón­varps­stöð sem sýnir bara kvennaíþróttir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Whoopi Goldberg er mikil baráttukona fyrir kvennaíþróttum og sýnir það heldur betur í verki með því að stofna AWSN sjónvarpsstöðina.
Whoopi Goldberg er mikil baráttukona fyrir kvennaíþróttum og sýnir það heldur betur í verki með því að stofna AWSN sjónvarpsstöðina. Getty/Pedro Gomes/

Óskarverðlaunaleikkonan og þáttarstjórnandinn Whoopi Goldberg er orðin mikill brautryðjandi þegar kemur að því að sjónvarpa frá kvennaíþróttum.

Goldberg mætti í spjallþátt Jimmy Fallon á NBC sjónvarpsstöðinni og sagði frá risafréttum. Hún tilkynnti það að verið væri að stofna sjónvarpsstöð sem sýnir bara frá kvennaíþróttum.

Áhugi á kvennaíþróttum hefur aukist mikið út um allan heim á síðustu árum með mettölum hvað varðar bæði áhorfendur og áhorf í sjónvarpi. Bandaríkin eru engin undantekning þar.

Sýna frá konum út um allan heim

Nýja sjónvarpsstöðin mun vera skammstöfuð AWSN sem stendur fyrir nafn hennar sem er „All Women's Sports Network“.

Stöðin mun ekki aðeins sýns kvennaíþróttir í Bandaríkjunum heldur frá konum keppa í íþróttum út um allan heim.

„Ef kona er að keppa einhvers staðar þá munum við sýna það,“ sagði Goldberg eins og sjá má með því að fletta hér fyrir neðan.

Loksins runninn upp

„Tími kvenna í íþróttum er loksins runninn upp,“ sagði Goldberg líka í kynningarinnslagi fyrir stöðina.

Íþróttastöðin mun vera í loftinu allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.

Auk þess að sýna beinar útsendingar frá alls konar keppnum í alls konar íþróttum þá verður einnig mikil þáttagerð í gangi.

Það verður fylgst með íþróttakonum á bak við tjöldin, umræðuþættir verða reglulega um leiki og keppnir, leikgreiningarþættir, heimildarmyndir um þróun og sögu kvennaíþrótta sem og unnið verður sérstaklega í því að gefa aðdáendum tækifæri á að tengjast uppáhaldsíþróttkonum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×