Körfubolti

Full­kominn og frá­bær leikur Tryggvi dugði ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason var öflugur undir körfunni í spænska körfuboltanum í dag eins og við þekkjum svo vel í leikjum íslenska landsliðsins.
Tryggvi Snær Hlinason var öflugur undir körfunni í spænska körfuboltanum í dag eins og við þekkjum svo vel í leikjum íslenska landsliðsins. Getty/Serhat Cagdas

Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Bilbao Basket urðu að sætta sig við svekkjandi tap á útivelli í æsispennandi leik við Basquet Girona, 100-94, í spænsku ACB deildinni í körfubolta í dag.

Úrslitin réðust ekki fyrr en í framlengingu eftir að Bilbao hafði verið yfir stærstan hluta leiksins.

Tryggvi átti sinn besta leik á tímabilinu og var langstighæstur í sínu liði með 24 stig.

Íslenski landsliðsmiðherjinn átti fullkominn leik því hann klikkaði ekki á skoti í leiknum, hitti úr öllum níu skotum sínum utan af velli og öllum sex vítum sínum.

Tryggvi skoraði þessi 24 stig á 26 mínútu, hann tók 7 fráköst, tróð boltanum þrisvar í körfuna og varði 1 skot. Bilbao vann með þremur stigum þegar hann var inn á vellinum.

Tryggvi jafnaði með þessu sinn besta persónulega árangur en hann hafði mest áður skorað 24 stig í einum leik í ACB-deildinni en það gerði hann fyrir Zaragoza liðið í janúar 2021.

Tryggvi var kominn með fimm stig eftir fyrsta leikhlutann og Bilbao leiddi þá með sex stigum, 23-17.

Tryggvi hitti úr fjórum fyrstu skotum sínum og var kominn með níu stig á fyrstu átta mínútum sínum. Bilbao missti niður forskotið þegar hann settist á bekkinn og var bara þremur stigum yfir fyrir hálfeik, 39-36.

Bilbao byrjaði seinni hálfleikinn 8-2 og var áfram með frumkvæðið. Liðið var engu að síður bara þremur stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 61-58.

Fjórði og síðasti leikhlutinn var síðan æsispennandi. Tryggvi fór þar fyrir sínu liði, skoraði ellefu stig í leikhlutanum.

Girona tókst samt að taka forystuna með góðum endakafla og endanlega með því að setja niður þriggja stiga skot þrettán sekúndum fyrir leikslok.

Tryggvi tryggði Bilbao framlengingu með því að taka sóknarfrákast og skila boltanum í körfuna á síðustu sekúndunum. 88-88 og framlenging því staðreynd.

Girona skoraði átta fyrstu stigin í framlengingunni og landaði síðan flottum endurkomusigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×