Skoðun

Hve­nær á að skatt­leggja líf­eyris­sjóðs­greiðslur?

Ögmundur Jónasson skrifar

Lengi hafa verið deildar meiningar um skattlagningu lífeyris. Ekki hvort eigi að skattleggja lífeyri heldur hvenær, við greiðslur í sjóðinn eða þegar greitt er úr honum.

Þegar ég gegndi formennsku í BSRB á árum áður vildum við þar á bæ að lífeyrisiðgjöldin yrðu skattlögð eins og aðrar tekjur okkar áður en þau rynnu inn í lífeyrissjóðinn. Fyrir bragðið yrðu greiðslurnar úr sjóðunum skattlausar svo og «ávöxtunin» sem gæti legið í plús en einnig í mínus eins og gerist með lífeyrissjóði og olíusjóði og aðra sjóði sem háðir eru sveiflum kapítalismans.

Alþýðusambandið var á öndverðum meiði við okkur í BSRB og vildi láta skattleggja greiðslurnar þegar þær kæmu úr lífeyrissjóðnum en iðgjöldin undanþegin skatti.

Deildar meiningar

Í kjölfar hrunsins blossaði þessi ágreiningur upp á nýjan leik. Við vildum sum hver breyta skattlagningunni að þessu leyti - það er skattleggja iðgjöldin - og vorum auk þess fylgjandi því að fólk hefði sem mestan aðgang að séreignasparnaði sínum til húsnæðiskaupa. Því fékkst framgengt og hefur séreignasparnaðurinn verið aðgengilegur og skattlaus ef hann er nýttur í þessu skyni. Vel að merkja - og þetta er ekkert aukaatriði - séreignasparnaðurinn skyldi alla tíð vera mjög takmarkaður, að mínu mati og skoðanasystkina minna, og takmarkaðri en síðar var samið um á almennum launamarkaði.

Forsendur mismunandi sjónarmiða

Annars vegar var sagt að sparnaði almennings væri best fyrir komið hjá lífeyrissjóðum. Þeir byðu upp á árangursríkustu leiðina til þess að láta sparnað ávaxta sig; þeir leituðu uppi þá fjárfestingarkosti sem gæfu mest í aðra hönd jafnframt því að vera traustir. Þess vegna ætti að láta þá fá eins mikið til ráðstöfunar og kostur væri. Og einmitt þess vegna mætti ekki skattleggja iðgjöldin og rýra þar með þá fjárhæð sem lífeyrissjóðirnir fengju í hendur til ráðstöfunar.

Á hinn bóginn var bent á, réttilega að mínu mati, að hagur okkar í samfélaginu væri ekki aðeins kominn undir gengi lífeyrissjóða heldur einnig ríkissjóðs og þangað ætti lífeyrissparnaður að renna í einhverjum mæli. Fyrr á tíð hefðu lífeyrissjóðir ávaxtað sitt pund á hóflegum kjörum með lánveitingum til nota í velferðarkerfinu, ekki síst húsnæðiskerfinu. Svo runnu upp nýir tímar og varð þá viðkvæðið hjá mörgum að lífeyrissjóðirnir ættu að hætta öllu daðri við ríkissjóð og ættu þess í stað að sækjast eftir sem hæstri ávöxtun fjármagnsins hvar sem hana væri að finna. Sparnaður landsmanna fór nú að streyma í auknum mæli til fjárfestingarbraskara en ekki inn í húsnæðiskerfið og til styrkingar innviðum samfélagsins.

Þegar lífeyrissjóðirnir verða eyðileggjandi afl

Fyrir um áratug orðaði ég þá hugsun að lífeyrissjóðirnir væru orðnir of fyrirferðarmiklir í hagkerfinu og ættum við að endurskoða fjárstreymi lífeyris, beina hluta sparnaðarins inn í samneysluna (sem ávaxtaði hana á félagslega gefandi hátt) en draga úr sjóðsmynduninni. Kerfið yrði þannig að hluta til gegnumstreymiskerfi eins og það upphaflega var. Sú hætta sem ég þóttist greina að væri að ágerast hér landi sem annars staðar var sú að allt það mikla fjármagn sem hlæðist upp í lífeyrissjóðunum kæmi í bakið á launafólkinu sem ætti sparnaðinn þegar allt kæmi til alls. Það gerðist þegar allt þetta fé á húsi skorti bithaga. Þá yrðu þeir hagar.

Hagar fundnir

Nema nú vildu lífeyrissjóðirnir ekki lengur lána til uppbyggingar þessara innviða. Nú vildu þeir eiga þá og hagnast á þeim. Nýjasta skrefið er útrás Kviku banka í Bretlandi þar sem fjárfest er í elliheimilum með ávöxtun „umfram væntingar“ að sögn Heimildarinnar 17.-23. maí sl.

Umfjöllun blaðsins bar fyrirsögnina Íslenska útrásin í bresku elliheimilin. Þar segir m.a. að fjárfestingarhópur á vegum þessara útrásarbraskara (Kviku og þar með íslenskra lífeyrissjóða) sé kominn hingað til lands til að „mæla fyrir aukinni einkavæðingu í velferðarþjónustu á Íslandi.“

Með öðrum orðum, fyrirsjáanlegt er að gamla fólkið muni fá heldur þynnri súpu þegar fram líða stundir.

Síðustu fréttir af lífeyrissjóðum

Síðustu fréttir eru svo þær að lífeyrissjóðirnir sem eiga Haga sem aftur eiga Haugkaup ætla sér að taka yfir dreifingu áfengis sem er milljarðabisniss sem hingað til hefur runnið í ríkissjóð sem fjármagnar heilbrigðiskerfið þar á meðal afleiðingar áfengisneyslu. Ábyrgir lífeyrissjóðir? Varla. En í samræmi við margt annað í kortunum sem stjórnmálamenn og samfélagið allt þarf að horfa til þegar lífeyrissjóðir eru annars vegar.

Yfir lífeyrissjóðina hefur rignt kröfum um að sýna ábyrgð varðandi Haga, Hagkaup og áfengið. En ekkert hefur gerst. Forstjóri Hagkaups segir vera rífandi bisniss í brennivínssölunni sem allir vita þó að er ólögleg.

Rök færð fyrir nauðsyn breytinga

Hvað varðar framtíð lífeyrissjóðanna reyndi ég að færa rök fyrir nauðsyn breytinga í nokkrum greinum sem ég skrifaði á hrunárunum og í kjölfar þeirra.

Eftirfarandi eru slóðir sem vísa á nokkrar þeirra. Ég rek augun í tilvísun í svokallaðan þjóðarsjóð sem margir vildu stofna á þessum árum og var talsvert rætt um hvernig hann skyldi nýttur. Þessi hugmynd þróaðist síðan og var áður en langt um leið farið að tala um Auðlindasjóð. Þeirri hugmynd hafa einkavæðingarsinnar ákaft veifað sem tálbeitu fyrir þjóðina svo hún rísi ekki upp á afturfæturna þegar Landsvirkjun og Gvendarbrunnarnir varða seldir. Þá fari hluti af arði nýrra eigenda -fjárfestanna – í þennan sjóð. Þetta er hugmynd og á hana líst mér illa.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/framtid-lifeyriskerfisins

https://www.ogmundur.is/is/greinar/lifeyriskerfid-tharf-ad-endurmeta

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvernig-a-ad-lydraedisvaeda-lifeyrissjodina

https://www.ogmundur.is/is/greinar/lifeyrissjodir-a-villigotum




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×