Innlent

Björguðu villtum ferða­mönnum í Fljóts­dal

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Ferðamennirnir fundust á gönguleið við Laugarfell.
Ferðamennirnir fundust á gönguleið við Laugarfell. landsbjörg

Björgunarsveitirnar Hérað og Jökull voru kallaðar út um klukkan 18 í kvöld vegna villtra ferðamanna í námunda við Kirkjufoss í Fljótsdal. Mennirnir fundust á gönguleið frá skála í Laugarfelli.

Þetta kemur fram í tilkynningu fá Landsbjörg. 

Auk björgunarsveita var drónahópur frá Ísólfi á Seyðisfirði kallaður út vegna þessarar leitar.

„Ferðamennirnir höfðu haft samband við Neyðarlínu vegna þess að þau voru orðin villt og köld. Samkvæmt upplýsingum frá ferðamönnunum var að skilja að þau hefðu gengið frá bóndabænum Egilsstöðum í Fljótsdal að Kirkjufossi og þau höfðu verið á göngu í nokkra klukkutíma en rötuðu ekki til baka,“ segir í tilkynningu. 

Björgunarsveitirnar Hérað og Jökull kallaðar út.

Björgunarsveitir hafi notast við dróna til að fara hratt yfir leitarsvæðið, ásamt því að björgunarfólk fór frá Egilsstöðum og skálanum í Laugarfelli.

„Fólkið fannst fljótlega á gönguleiðinni, ekki langt frá skálanum í Laugarfelli. Þá kom í ljós að þau höfðu gengið þaðan og bíll þeirra var þar. Þau voru aðstoðuð aftur inn í Laugarfell og björgunarsveitir héldu heim á leið. Aðgerðum lauk nú á tíunda tímanum í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×