Skoðun

Stuðlar: neyðará­stand í með­ferðar­kerfinu

Böðvar Björnsson skrifar

Markviss fækkun meðferðarúrræða

Þegar Barnaverndarstofa var stofnuð árið 1996 voru mörg meðferðarheimili í boði fyrir ungmenni í vanda. Á árunum 1996 til 2010 voru um tíu meðferðarheimili starfandi en Barnaverndarstofa lokaði flestum þeirra og árið 2010 voru aðeins þrjú heimili eftir: Laugaland í Eyjafjarðarsveit fyrir stúlkur, Háholt í Skagafirði fyrir erfiða stráka með fjölþættan vanda og Lækjarbakki á Suðurlandi fyrir bæði kynin. Árið 2010 var Götusmiðjunni, óhefðbundnu úrræði fyrir unglinga með fíknivanda, lokað. Það var eftirsjá að því. Sama ár var einu besta meðferðarheimili landsins, Árbót í Aðaldal, lokað og ástæðan sögð sú að þar væri ekki fagfólk og ónóg aðsókn. Stuttu síðar var þó meðferðarheimilið Lækjarbakki opnað og allir sem til þekkja geta verið sammála um að það voru ekki góð skipti.

Afleiðingar lokunar Háholts

Þann fyrsta júlí 2017 lokaði Barnaverndarstofa meðferðarheimilinu Háholti. Ástæðan var sögð sú að engar umsóknir væru um vistun þar en barnaverndarnefndir landsins voru alls ekki sammála því. Fjöldi stráka á götunni í neyslu og afbrotum sýndi líka að sú ástæða gat ekki staðist. Hins vegar er raunhæf meðferð ungra karlmanna í neyslu og afbrotum með fjölþættan vanda og alvarlega ofbeldishegðun mjög kostnaðarsöm og krefst mikils mannafla og sérútbúins húsnæðis. Vegna kostnaðar við sérhæfða meðferð fyrir þennan hóp vildi Barnaverndarstofa ekki viðurkenna alvarleika málsins og beindi þessum ungmennum í almenna meðferðarkerfið með skelfilegum afleiðingum.

Í eftirfarandi dæmi má sjá raunasögu pilts úr þessum hópi sem fór í gegnum meðferðarkerfi Barnaverndarstofu á árunum um og eftir lokun Háholts. Þetta er tilbúið dæmi svo það fjalli ekki um tiltekinn einstakling en er þó algerlega raunhæft.

  • 1. Vistaður á neyðarvistun í byrjun október 2016, sextán ára gamall.
  • 2. Vistaður á meðferðardeild Stuðla í lok október 2016.
  • 3. Vistaður á Háholti í byrjun febrúar 2017 til 1. Júlí 2017, en þá var Háholti lokað.
  • 4. Fimm vistanir á neyðarvistun Stuðla árið 2017.
  • 5. Vistun á millideild neyðarvistunar Stuðla í 30 daga.
  • 6. Tvær vistanir á Vogi árið 2017.
  • 7. Vistun á geðdeild eftir sjálfsvígstilraun í desember 2017.
  • 8. Tólf vistanir á neyðarvistun 2018.
  • 9. Tveggja mánaða vistun á meðferðarheimilinu Lækjarbakka vorið 2018.
  • 10. Vistun á millideild neyðarvistunar Stuðla í einn mánuð sumarið 2018.
  • 11. Um það bil tíu heimsóknir á bráðamóttöku/ innlagnir á LSP vegna lífshættulegra aukaverkana af völdum ofneyslu árið 2018.
  • 12. Á götunni á milli vistana og sífelld afskipti lögreglu.
  • 13. Útskrifaður úr meðferðarkerfi Barnaverndarstofu þegar hann varð 18 ára í nóvember 2018.

Ofangreint dæmi á við örlög tuga ungra pilta eftir lokun Háholts til dagsins í dag. Í stað vistunar á Háholti, tengingu við daglegt líf og vinnu og vímuefna- og samtalsmeðferð

fóru þeir og fara enn inn og út af neyðarvistun Stuðla; eru vistaðir á meðferðardeildinni þar og síðan í langtímavistun á meðferðarheimili sem er algerlega ófært um að eiga við þennan erfiða hóp. Það sýna strok af meðferðarheimilinu og aftur vistanir á neyðarvistun eftir neyslu, afbrot og ofbeldi. Það sýnir greinilegan skort á úrræðum fyrir þennan hóp þegar margir piltar koma tíu til tuttugu sinnum á neyðarvistun Stuðla.

Áhrifin á almenna meðferðarkerfið

Afleiðingin af því að sinna ekki sértækt þessum skjólstæðingahópi og blanda honum saman við almenna meðferðarkerfið er eftirfarandi:

  • 1. Fyrir einstaklingana í hópnum: Þeir taka ekki meðferð og missa virðingu fyrir meðferðinni því kerfið ræður ekki við þá. Árum saman eru þeir inn og út af stofnunum og í neyslu og afbrotum þess á milli. Á átjánda afmælisdeginum eru þeir útskrifaðir úr meðferðarkerfinu, mjög illa staddir og búnir að brenna margar brýr að baki sér.
  • 2. Fyrir meðferðarstofnanirnar: Þessir erfiðu piltar stórskaða eða eyðileggja meðferðina fyrir öðrum ungmennum. Þeir eyðileggja starfshópana, valda miklum kvíða og beita starfsfólk hótunum og ofbeldi þannig að starfsfólk upplifir sig ekki öruggt í vinnunni. Af þessu hlýst mikill kostnaður þegar fólk fer í sjúkraleyfi eftir árásir eða þegar fólk treystir sér ekki á vaktir vegna ofbeldishættu og tilkynnir sig veikt. Þeir eyðileggja mikið af innanstokksmunum og skemma húsnæðið fyrir milljónir. Þeir auka mjög álag á barnaverndarnefndir og lögreglu og neyðarvistun Stuðla og einstaka ungmenni hafa vistast allt að fjörutíu sinnum á neyðarvistun.

Ósýnilegir sérfræðingar

Önnur röksemd Barnaverndarstofu fyrir að loka Háholti var að ekki væri fagleg þjónusta úti á landi, þar vantaði sérfræðingana. Við sem störfuðum í neyðarvistun við að taka aftur og aftur á móti þessum erfiðu piltum í mjög slæmu ástandi eftir lokun Háholts urðum aldrei vör við fagteymin og sérfræðingana í borginni. Það kom enginn til okkar þrátt fyrir tugi vistana sama einstaklings og allt að 90 daga vistun á svokallaðri millideild. Við spurðum okkur líka: Hvaða sérfræðingar eru þetta og hvað ætla þeir að gera? Allt tal um fagteymi og sérfræðinga reyndist því miður nær alltaf innihaldslaust orðagjálfur.

Því skal líka haldið til haga að stór faglegur meðferðarþáttur var staðsetning Háholts langt frá höfuðborginni, fjarri hættulega félagsskapnum, vímuefnaneyslunni og afbrotunum. Auk þess var byrjað að bæta húsakost Háholts til að geta tekið betur við erfiðum piltum í meðferð, auk gæsluvarðhalds og afplánunar. Það má líka benda á að á landsbyggðinni er líka að finna skynsamt fólk og fagfólk. Háholt stendur autt í dag.

Til að mæta neyðarástandinu eftir lokun Háholts var stofnuð millideild á neyðarvistun Stuðla fyrir pilta sem annars hefðu átt að vistast á Háholti. Lagastoð deildarinnar var á gráu svæði og vistunartími gat verið margir mánuðir. Þessar löngu vistanir í litlu og þröngu rými voru mjög erfiðar fyrir skjólstæðinga og starfsmenn. Það hrikti í starfseminni árum saman. Ef það er raunverulegur vilji til að aðstoða þennan hóp þarf meðferðarheimili með ígildi fangelsisramma og miklum aga svo hægt sé að binda enda á hættulega hegðun þessara ungu manna og hjálpa þeim á nýjar brautir.

Neyðarvistun - félagslegt úrræði verður heilbrigðisúrræði

Þegar meðferðarstöðin Stuðlar var opnuð haustið 1996 voru tvö tveggja manna herbergi í neyðarvistun. Vistunarástæður voru yfirleitt útigangur, vímuefnaneysla og afbrot. Neyslan var alltaf á þeim nótum að ekki þurfti læknisaðstoð því efnin voru aðallega áfengi og hass. Árið 2005 var opnuð stækkuð neyðarvistun með fimm einstaklingsherbergjum í nýrri viðbyggingu við Stuðla. Nú er pláss fyrir átta ungmenni í neyðarvistun. Aldurstakmark er tólf til átján ára og hámarkstími er fjórtán dagar, en reynt er að hafa vistunartímann eins stuttan og mögulegt er.

Upp úr aldamótum var gerður samstarfssamningur við Barna- og unglingageðdeild – BUGL um að þjónusta ungmenni í neyðarvistun sem þurftu á læknisaðstoð að halda en samstarfið gekk ekki vel. Læknarnir þekktu ekki þennan skjólstæðingahóp og höfðu nóg að gera við að sinna eigin skjólstæðingum. Samningnum var sagt upp, en eftir sat að stofnanir sem áttu að sinna neyðarþjónustu fyrir ungmenni með geðrænan vanda höfðu uppgötvað neyðarvistun Stuðla, sem verður að taka við öllum ungmennum í vanda. Neyðarvistun Stuðla er félagslegt úrræði sem hægt og rólega breyttist í heilbrigðisúrræði – án þess að vera heilbrigðisstofnun með heilbrigðisstarfsfólk.

Eftir uppsögn samningsins við BUGL var gerður þjónustusamningur við SÁÁ og það var mikið gæfuspor fyrir Stuðla því læknar og hjúkrunarfólk sjúkrahússins Vogs voru alltaf til taks og viljug til að mæta á Stuðla hvenær sem er sólarhringsins. Þau þekktu vel til vandamála skjólstæðinganna, gáfu sér tíma til að ræða við þá og sýndu aðstæðum þeirra skilning og áhuga. Neyðarvistun Stuðla er eini staðurinn þar sem hægt er að afvatna ungmenni undir 18 ára aldri gegn vilja þeirra og það er ekki mögulegt án aðkomu SÁÁ. Hins vegar breytti Afeitrunardeild fyrir ólögráða ungmenni á Landspítalanum engu fyrir starfsemina á neyðarvistun Stuðla.

Unglingar með geðrænan vanda

Í upphafi nýrrar aldar varð æ algengara að unglingar með geðrænan vanda væru vistaðir í neyðarvistun og flestir voru á geðlyfjum. Það var erfitt að henda reiður á vanda þeirra en þeir komu sér oft í þær aðstæður að þeir voru vistaðir í neyðarvistun. Síðan bættust við alvarlegri tilvik, ungmenni á einhverfurófi, ungmenni í geðrofi, greindarskert ungmenni, ungmenni með alvarlegan sjálfsskaða og í sjálfsvígshættu – ásamt miklum fíknivanda hjá öllum þessum einstaklingum. Mörg af þessum ungmennum hefði átt að vista á BUGL, en sú stofnun tekur ekki við ungmennum sem hafa notað fíkniefni, sama hver annar vandi er, og heldur ekki við ungmennum sem beita ofbeldi, sama hver vandinn er.

Neyðarvistun Stuðla hefur setið uppi með slíka skjólstæðinga í áratugi. Dæmi um örfáa þeirra:

  • a) Unglingur á einhverfurófi með alvarlegan fíknivanda, sprautunorkun og alvarlegan sjálfsskaða sem þarf sólarhringseftirlit á neyðarvistun og er yfirleitt rúmliggjandi í tíu daga eftir komu. Margoft vistaður í neyðarvistun.
  • b) Piltur í geðrofi er aftur og aftur vistaður á neyðarvistun. Stór og sterkur. BUGL treysti sér ekki til að vista hann hjá sér.
  • c) Piltur með mikinn geðrænan vanda, er á geðlyfjum og í mikilli neyslu og afbrotum, stór og sterkur, getur verið lífshættulegur og beitir grófu ofbeldi. Margoft vistaður í neyðarvistun.
  • d) Unglingur með mjög veikt bakland, mjög slæmar uppeldisaðstæður og í mikilli neyslu á hörðum efnum. Kemur hvað eftir annað á neyðarvistun nær dauða en lífi og er yfirleitt rúmliggjandi í viku. Margoft vistaður í neyðarvistun.
  • e) Mjög veikur einstaklingur sætir öryggisvistun í fundarherbergi neyðarvistunar mánuðum saman meðan verið er að útbúa lokað sólarhringsúrræði. Eðlilega hefði þessi einstaklingur átt að vistast á BUGL eða öryggisgeðdeild.
  • f) Ungmenni í sjálfsvígshættu eru oft vistuð í neyðarvistun sem er algerlega óásættanlegt.

Neyðarvistun tekur við skjólstæðingum allan sólarhringinn og því fylgir mikil áhætta að taka við ungmennum undir áhrifum fíkniefna. Það er engin leið að vita hvað unglingurinn hefur tekið inn síðustu klukkutímana, svo fylgjast þarf vel með því hvort meðvitund er að minnka eftir að hann kemur til vistunar. Það er alltaf hætta á að ungmenni látist af ofskömmtun þegar þau sofna nýkominn inn.

Enn eitt verkefnið sem er að sliga Stuðla er að gæsluvarðhaldi og afplánun ungmenna er beint á Stuðla sem aldrei fyrr.

Gagnagrunnur bráðnauðsynlegur

Neyðarvistun Stuðla hefur beðið Barnaverndarstofu, nú Barna- og fjölskyldustofu, um að fá gagnagrunn fyrir starfsemina frá því fyrir síðustu aldamót en þeirri beiðni hefur verið hafnað í rúma tvo áratugi sem er óskiljanlegt. Gagnagrunnurinn gæti nýst á margan hátt til að skilja betur vandamálin sem unnið er með og hjálpað við að þróa betri starfsemi. Án gagnagrunns eru starfsmenn að hluta til í myrkri og geta ekki svarað ótal gagnlegum spurningum. Það eru til gögn um hverja einustu vistun í neyðarvistun frá 1996 til dagsins í dag og allar dagbækur frá sama tíma. Óskandi væri að skipuð yrði nefnd til að skoða leið ungmenna í gegnum meðferðarkerfð frá 2015 til dagsins í dag, eins og í tilbúna dæminu hér að ofan. Vistanir í neyðarvistun veita miklar upplýsingar um hvar skórinn kreppir að og um alvarlegar brotalamir í kerfinu. Þegar unglingur er vistaður tíu til þrjátíu sinnum í neyðarvistun segir það sig sjálft að kerfið er ekki að virka.

Starfsfólk aldrei nógu gott

Undanfarna tvo áratugi hefur starfsfólk neyðarvistunar unnið þrekvirki við að þjónusta mjög veika einstaklinga og koma þeim aftur til líkamlegrar heilsu, vera á sólarhringsvakt yfir unglingum í sjálfsvígshættu eða með sögu um alvarlegan sjálfsskaða; taka á grófu ofbeldi skjólstæðinga, afvatna fárveik ungmenni og gæta þess að þeir stóru og sterku taki ekki völdin í ungmennahópnum á deildinni. En í gegnum árin hefur starfsfólkið mætt tómlæti, yfirlæti og vanþakklæti frá Barna og fjölskyldustofu fyrir störf sín. Eins og einn starfsmaður með áratuga reynslu orðaði það: Það er sama hvað við stöndum okkur vel, það er aldrei nógu gott fyrir Barnaverndarstofu.

Fjölmiðlafólk sýnir starfinu á Stuðlum helst áhuga ef það hefur von um feita frétt um að starfsfólk sé að leggja hendur á ungmennin. Ekki skortir heldur frásagnir um hörmulega atburði áður fyrr og svo eru íslensku kvikmyndirnar þar sem starfsmenn meðferðarheimila eru upp til hópa illmenni.

Stjórnsýslan dafnar og vex

Undanfarna tvo áratugi hefur öll stefnumótun í meðferðarkerfi Barnaverndarstofu verið á hendi framkvæmdastjóra meðferðarsviðs. Hann einn hefur valdið. Það getur varla talist heilbrigð eða nútímaleg stjórnsýsla að skoðanir eins manns móti starfsemi allra meðferðarúrræða fyrir allt samfélagið. Barnaverndarnefndir, sem eru notendur þjónustunnar, hafa ekkert um málið að segja, ekki heldur félagsráðgjafar með áratuga reynslu eða starfsfólkið á gólfinu með áratuga reynslu í meðferðargeiranum - og ekki heldur fangelsismálastofnun þar sem er mikil þekking sem nýst gæti varðandi hönnun öruggs húsnæðis og skipulags mannafla.

Barnaverndarstofa var upphaflega stofnuð upp úr Unglingaheimili ríkisins og tók við rekstri meðferðarheimilanna og Stuðla sem var nýtt úrræði. Síðan hafa liðið mörg ár og fljótlega jókst áherslan á stjórnsýsluna sjálfa, að stækka Barnaverndarstofu og auka völd stofunnar. Stjórnsýslan á Barna og fjölskyldustofu hefur aukist gífurlega og margir málaflokkar færst til stofunnar. Eða eins og einn ábúðarfullur yfirmaður á Barnaverndarstofu orðaði það eitt sinn: Stofan er ígildi ráðuneytis.

Meðan þjóðinni hefur fjölgað um hundrað þúsund manns hefur meðferðarkerfið skroppið stórlega saman en stjórnsýslubáknið á Barna og fjölskyldustofu blásið út. Haustið 2023 kom sérfræðingur af Barna og fjölskyldustofu á starfsmannafund á Stuðlum og sagði að innan fárra ára yrði engin þörf fyrir starfsemi eins og á Stuðlum, því þá væri búið að grípa öll ungmennin löngu áður en í óefni væri komið.

Fræðaheimurinn er góður fyrir vangaveltur en veruleikinn stendur óhaggaður eftir sem áður. Í orðum sérfræðingsins kom fram tilhneiging Barna og fjölskyldustofu að skýra frá því hve allt verður gott í framtíðinni en starfið getur aldrei miðast við annað en meðferðina í dag.

Höfundur er fyrrverandi deildarstjóri neyðarvistunar Stuðla og fór á eftirlaun 1. Janúar 2022




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×