Sport

„Ég vil ekki deyja í sjúkra­rúmi heldur í hringnum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mike Tyson er klár í slaginn gegn Jake Paul.
Mike Tyson er klár í slaginn gegn Jake Paul. getty/PG

Mike Tyson hunsaði ráðleggingar lækna eftir að hann greindist með magasár sem varð til þess að fresta þurfti bardaga hans og Jakes Paul.

Tyson og Paul áttu upphaflega að mætast í hringnum í júlí en fresta þurfti bardaganum eftir að það leið yfir Tyson í flugi frá Miami til Los Angeles.

Í ljós kom að Tyson var með magasár. Hann segir að læknar hafi ekki getað útilokað að hann myndi látast af völdum þess.

„Þegar ég var í flugvélinni á leið hingað til Miami fór ég á klósettið og kastaði upp blóði. Það næsta sem ég vissi var að ég lá á gólfinu. Ég fór á spítala og þeir fundu rúmlega sex sentímetra magasár. Allir vinir mínir hringdu í mig eins og ég væri að deyja,“ sagði Tyson.

„Ég spurði lækninn hvort ég myndi deyja og hún sagði ekki nei. Hún sagði samt að við hefðum möguleika. Þá varð ég hræddur. En ég vildi bara komast úr þessu helvítis sjúkrarúmi. Ég vil ekki deyja í sjúkrarúmi. Ég vil deyja í hringnum.“

Einn læknirinn sem meðhöndlaði Tyson ráðlagði honum að taka því rólega við æfingar eftir veikindin. Tyson virti þau tilmæli læknisins að vettugi.

Á föstudaginn mætast þeir Tyson og Paul á AT&T leikvanginum í Texas, heimavelli Dallas Cowboys. Bardaginn verður sýndur beint á Netflix.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×