Erlent

Að­eins einn af tíu segist myndu til­kynna of­beldið að fenginni reynslu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðeins einn af hverjum tíu þolendum kynferðisofbeldis segist myndu leita aftur til lögreglu að fenginni reynslu.
Aðeins einn af hverjum tíu þolendum kynferðisofbeldis segist myndu leita aftur til lögreglu að fenginni reynslu. Getty

Um það bil 75 prósent þolenda kynferðisofbeldis á Englandi og í Wales segja meðferð lögreglu á máli þeirra hafa valdið þeim andlegum skaða. Aðeins einn af hverjum tíu þolendum segist myndu tilkynna mál sitt að fenginni reynslu.

Þetta eru niðurstöður viðamikillar rannsóknar á upplifun um 5.000 þolenda en tveir af hverjum fimm svarendum sögðust sammála því að lögregla hefði staðið sig vel og einn af fimm sagði lögreglu hafa þrýst á sig að draga málið til baka.

Ráðist var í yfirhalningu á meðferð kynferðisbrotamála í kjölfar rannsóknar árið 2021, eftir að ákærum í kynferðisbrotamálum fækkaði um 60 prósent frá 2016/2017 til 2019/2020. Fór fjöldi mála úr 5.190 í 2.102 á tímabilinu.

Aðgerðirnar hófust af fullum þunga í fyrra og á sama ári fjölgaði ákærum vegna kynferðisbrota um 18 prósent og ákærum vegna nauðgana um 38 prósent.

Að sögn Katrin Hohl, sem fór fyrir rannsókninni og er sjálfstæður ráðgjafi stjórnvalda í málaflokknum, gefa niðurstöðurnar til kynna að aðgerðir yfirvalda séu að skila árangri. Langt sé þó í land en nærri helmingur þolenda segist til að mynda á biðlista eftir aðstoð eða ekki hafa fengið neinn stuðning.

Könnunin meðal þolenda leiddi einnig í ljós að þegar þeir voru beðnir um að forgangsraða sjö „jákvæðum niðurstöðum“ var sakfelling neðst á lista. Um 88 prósent sögðu afar mikilvægt að koma í veg fyrir að gerandinn bryti gegn öðrum en aðeins 56 prósent sögðu sakfellingu skipta sköpum.

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×