Erlent

Tugir látnir eftir að bíl var ekið inn í þvögu fólks í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Svo virðist sem 62 ára maður hafi ekið á fjölda fólks af handahófi.
Svo virðist sem 62 ára maður hafi ekið á fjölda fólks af handahófi. AP/Kyodo News

Að minnsta kosti 35 eru látnir og 43 særðir eftir að maður ók bíl á hópa fólks í borginni Zhuhai í Kína í gærkvöldi. Lögregluþjónar handtóku 62 ára gamlan mann vegna árásarinnar.

Maðurinn, sem lögreglan segir heita Fan, er sagður hafa fundist í bílnum með hníf í hendi og áverka á hálsi sem hann er talinn hafa veitt sér sjálfur. AP fréttaveitan segir hann hafa verið meðvitundarlausan og að hann hafi verið fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Óljóst er hver líðan hans er núna.

Lögreglan segir að fyrstu vísbendingar í málinu bendi til þess að Fan, sem var nýskilinn, hafi verið verulega ósáttur við hvernig eigum hans og eiginkonu hans var deilt á milli þeirra við skilnaðinn.

Árleg flugsýning kínverska hersins hófst í Zhuhai í morgun. Í frétt AP segir að fregnir og færslur af árásinni í borginni hafi verið þurrkaðar af samfélagsmiðlum í Kína og fréttir sem skrifaðar voru af kínverskum fjölmiðlum hafa verið fjarlægðar af netinu.

Myndbönd frá Zhuhai hafa þó verið í dreifingu á vestrænum samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×