Skoðun

Það besta sem þú gerir fyrir lofts­lagið

Halldór Björnsson skrifar

Hvað er það besta sem ég get gert fyrir loftslagið? Þessa spurningu fæ ég oft frá fólki sem hefur áhyggjur af loftslagsmálum og vill gera sitt til að vera hluti af lausninni. Oft hefur það áhyggjur af eigin kolefnisfótspori eða hefur sterkar meiningar um kolefnisspor nágrannans. Svar mitt um að kolefnispor þeirra eða nágrannans sé ólíklegt til að vera stóra málið vekur furðu. En hvað er þá það besta sem þú gerir fyrir loftslagið? Svarið tengist því sem mörg okkar hafa tækifæri til að gera þann 30. nóvember. En fyrst nokkrar staðreyndir.

Síðustu tvö ár eru heitustu tvö ár frá upphafi mælinga og styrkur gróðurhúsalofttegunda hefur sjaldan vaxið jafn hratt milli ára. Afleiðingar aukinna gróðurhúsaáhrifa eru augljósar öllum sem fylgjast með fréttum af ofsaveðri og náttúruhamförum. Það tjón sem loftslagsbreytingar valda fer vaxandi. Ef heldur sem horfir mun kostnaðurinn aukast svo mikið að hann fer að bitna á verkefnum þjóðfélaga, svo sem að tryggja velferð og gang efnahagslífsins.

Loftslagsbreytingar stafa af óheftri losun gróðurhúsalofttegunda. Losunar sem er á ábyrgð ríkisstjórna og hins hnattræna hagkerfis sem hefur til skamms tíma verið að mestu knúið af bruna jarðefnaeldsneytis.

Það er mergurinn málsins. Vandinn er kerfislægur og þarf að leysa á því plani. Það er vissulega gott ef við hugum að kolefnisspori okkar, en kolefnisspor einstaklinga mun ekki ráða úrslitum. Til að ná tökum á vandanum þarf hnitmiðaðar aðgerðir ríkisstjórna heimsins, sem þurfa að umbreyta hinu hnattræna efnahagskerfi svo það gangi á endurnýjanlegri orku sem ekki mengar eða veldur komandi kynslóðum tjóni. Til þess að leysa vandann þarf stjórnvöld sem þora að stíga fram og takast á við vandann án þess að kikna.

Þetta er mjög stórt verkefni og skiljanlegt að sumum fallist hendur. Hér áður fyrr var algengt að viðbrögðin væru að afneita vandanum og ófáum blaðagreinum hefur verið sólundað í að draga loftslagsvísindi í efa. Á síðustu árum hafa alvarleg áhrif loftslagsbreytinga þó orðið öllum augljós og viðbrögðin færst frá hreinni afneitun í að færa ábyrgðina, eða að draga allar lausnir í efa.

Það að færa ábyrgðina beinir athyglinni að kolefnisspori einstaklinga, gerir þá ábyrga fyrir losun sem þeir hafa takmarkaða möguleika til að hafa áhrif á og það mun ekki leysa vandann.

Það að deila um til hvaða lausna eigi að grípa er hinsvegar eðlilegt. Í lýðræðisþjóðfélagi er eðlilegt að takast á um hvaða leiðir eigi að fara til að umbylta hagkerfinu á þann hátt sem nauðsynlegt er til að leysa loftslagsvandann.

Og þá komum við að því mikilvægasta sem við gerum í baráttunni við loftslagsbreytingar, sem er að kjósa eftir loftslagsstefnu flokka.

Það er mikilvægt að við segjum frambjóðendum þess flokks sem okkur líst best á að loftslagsmál skipti okkur máli, - við viljum að þeir hafi raunhæfa stefnu í loftslagsmálum. Þá sé hægt að mæla með þeim við aðra. Og þá er einnig hægt að halda þeim við efnið að loknum kosningum.

Í sumum nágrannalöndum okkar hafa loftslagsmál orðið bitbein milli hægri og vinstri afla í stjórnmálum. Það er oftast byggt á misskilningi. Loftslagsmál ná vítt yfir hið pólitíska róf. Það eru til vinstri sinnaðar lausnir á vandanum og það eru til hægri sinnaðar lausnir á vandanum. Loftslagsmál eru hvorki hægri né vinstri, þau eru einfaldlega leysanlegt vandamál og það eru ólíkar leiðir færar að markinu. Og það er stjórnmálanna að velja lausnir, - og það er okkar að kjósa flokka sem bjóða upp á þær loftslagslausnir sem okkur líst best á.

Það mikilvægasta sem við gerum í baráttunni við loftslagsvandann á sér því stað í kjörklefanum - að kjósa þann flokk sem við treystum til að takast á við vanda sem að óbreyttu stefnir okkur og börnunum okkar í óefni.

Höfundur er formaður Vísindanefndar um loftslagsbreytingar og meðlimur Loftslagsráðs.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×