Fótbolti

Tengda­sonur Roy Keane í enska lands­liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Taylor Harwood-Bellis á æfingu enska landsliðsins.
Taylor Harwood-Bellis á æfingu enska landsliðsins. getty/Eddie Keogh

Roy Keane var fyrirliði írska landsliðsins á sínum tíma. Tengdasonur hans var hins vegar valinn í enska landsliðið í fyrsta sinn á dögunum.

Taylor Harwood-Bellis, varnarmaður Southampton, var kallaður inn í enska landsliðið vegna mikilla forfalla en átta leikmenn drógu sig út úr hópnum sem var valinn fyrir leikina gegn Grikklandi og Írlandi í Þjóðadeildinni.

Harwood-Bellis er nýtrúlofaður dóttur Keanes, Leah. Hann segist fá góð ráð frá tengdapabba sínum.

„Það er mjög gott og ég þigg ráðin með þökkum,“ sagði Harwood-Bellis um samband þeirra Keanes. Hann segist ekkert hafa rætt við tengdó um leikinn gegn Írlandi. Öll einbeiting sé á leiknum gegn Grikklandi. Englendingar töpuðu fyrri leiknum gegn Grikkjum.

„Þetta er stór leikur fyrir okkur, sérstaklega eftir fyrri leikinn á heimavelli. Auðvitað viljum við fara þangað og ná í góð úrslit. Völlurinn verður fullur og stemmningin góð. Við hlökkum til leiksins og áskorunarinnar.“

Hinn 22 ára Harwood-Bellis er uppalinn hjá Manchester City en lék aðeins átta leiki fyrir aðallið félagsins. Á síðasta tímabili var hann lánaður til Southampton og félagið keypti hann svo í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×