Viðskipti innlent

Spá hressi­legri vaxtalækkun

Árni Sæberg skrifar
Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Vísir/Egill

Greiningadeild Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni lækka stýrivexti sína um hálft prósentustig þegar hún kemur saman síðar í mánuðinum.

Þetta kemur fram í pistli sem Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, ritar á vef bankans.

„Við spáum því að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir um 0,5 prósentur þann 20. nóvember en talsverðar líkur eru þó einnig á 0,25 prósentu vaxtalækkun. Líklega mun vegast á annars vegar hjaðnandi verðbólga, kólnandi húsnæðismarkaður og batnandi verðbólguhorfur en hins vegar óvissa vegna stjórnarslita og verkfalla, seigla í einkaneyslu, allsterkur vinnumarkaður og óstöðugar verðbólguvæntingar.“

Niður fyrir níu prósentin

Stýrivextir eru nú níu prósent og munu fara niður fyrir níu prósentin í fyrsta skipti síðan þeir voru hækkaðir upp í 9,25 prósent í ágúst í fyrra, gangi spá Íslandsbanka eftir. Í maí sama ár voru stýrivextir 8,75 prósent.

Íslandsbanki telur líklegast að stýrivextir verði lækkaðir niður fyrir þá tölu en einnig sé líklegt að þeir verði lækkaðir um 0,25 prósentustig og verði þeir sömu og í maí í fyrra. Greiningadeildin segir ummæli peningastefnunefndar þegar síðasta vaxtaákvörðun var kynnt, um að þörf sé á „hæfilegu aðhaldsstigi“ peningamála enn um sinn.

Óvissan gæti gert nefndina varkárari en ella

Í grein Jóns Bjarka segir að óvissa vegna nýlegra stjórnarslita og yfirvofandi kosninga ásamt yfirstandandi verkföllum hjá allstórum hópi opinbers starfsfólks sé þó líkleg til að gera peningastefnunefndina heldur varkárari en ella við vaxtaákvörðunina nú. 

Að auki þurfi nefndin að vega saman annars vegar nýlega hjöðnun verðbólgu, kólnandi húsnæðismarkað og batnandi verðbólguhorfur en hins vegar seiglu í einkaneyslu, allsterkan vinnumarkað og nokkuð sveiflukenndar verðbólguvæntingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×