Innlent

Rúmar hundrað milljónir í þágu barna í Mos­fells­bæ

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Regína Ásvaldsdóttir er bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Regína Ásvaldsdóttir er bæjarstjóri Mosfellsbæjar. Vísir/sigurjón

Mosfellsbær hyggst fjárfesta aukalega rúmum hundrað milljónum í forvarnarstarf fyrir börn og ungmenni bæjarins á næsta ári. Þessi ákvörðun er tekin vegna óheillaþróunar og fjölgunar barnaverndarmála.

Þessi aukafjárveiting í þágu barna er liður í átaki bæjarins sem nefnist „börnin okkar“. Í morgun bauð bærinn til kynningarfundar á átakinu þar sem tuttugu og sjö viðbótaraðgerðir í málefnum barna og ungmenna voru kynntar.

Regína Ávaldsdóttir er bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

„Við getum nefnt sem dæmi aukna sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf. Við erum að tala um hækkun á frístundastyrk, við erum að tala um að opna frístundahúsin á kvöldin og um helgar. Við erum að tala um aðstöðu fyrir rafíþróttir, við erum að tala um námskeið fyrir foreldra og kennara og við erum líka að tala um samskiptasáttmála á milli foreldra og skóla.“

Bæjarstjórnin ákvað að grípa inn í af krafti vegna óheillaþróunar.

„Grunnurinn er aukning í barnaverndartilkynningum. Það er fimmtíu prósenta aukning sem við sjáum á fyrstu tíu mánuðum ársins. Það er ekkert bara bundið við Mosfellsbæ heldur er þetta um allt land. Við höfum auðvitað orðið vör við mikla umræðu og upplifað hræðilega atburði sem hafa gerst í samfélaginu þannig að þetta er okkar framlag. Við bara litum inn á við og fengum ráð bæði frá foreldrum og okkar besta fagfólki. Við höldum að við séum búin að móta góða áætlun sem tekur á mjög mörgum þáttum.“

Gestir á kynningafundi í morgun voru beðnir um að skrifa á hjarta það sem þeim finnst mikilvægast til að tryggja öryggi og vellíðan barna og ungmenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×