Fótbolti

Kane gagn­rýnir þá sem drógu sig út úr landsliðshópnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane á æfingu enska landsliðsins.
Harry Kane á æfingu enska landsliðsins. getty/Alex Livesey

Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins, hefur gagnrýnt þá sem drógu sig út úr landsliðshópnum fyrir næstu leiki þess. Hann segir að landsliðið sé mikilvægara en félagsliðið.

Alls drógu níu leikmenn sig út úr enska landsliðshópnum fyrir leikina gegn Grikklandi og Írlandi í Þjóðadeildinni. Kane skaut á þá í viðtali við ITV.

„Ég held að England sé mikilvægara en allt. England kemur á undan félaginu,“ sagði Kane sem er markahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins.

„Landsliðið er það mikilvægasta sem þú spilar fyrir sem atvinnumaður í fótbolta og Gareth [Southgate, fyrrverandi landsliðsþjálfari] stóð fastur á því og var óhræddur við að gera breytingar ef löngunin þvarr hjá nokkrum leikmönnum.“

Kane segir synd að svo margir leikmenn hafi dregið sig út úr landsliðshópnum.

„Þetta er erfiður kafli á tímabilinu og kannski hafa leikmenn nýtt sér það. Ég er ekki hrifinn af því ef ég á að vera heiðarlegur. Mér finnst landsliðið mikilvægara en allt, öll staða hjá félagsliðum,“ sagði Kane.

Trent Alexander-Arnold, Cole Palmer, Phil Foden, Jack Grealish, Bukayo Saka, Declan Rice, Aaron Ramsdale og Levi Colwill drógu sig út úr landsliðshópnum. Jarrad Branthwaite, sem var kallaður inn í landsliðið vegna forfallanna, gerði þurfti svo einnig að draga sig út úr hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×