Tvær sprengingar urðu utan við hæstaréttarbygginguna skömmu eftir að dómurinn lauk störfum í gær. Sú fyrri varð í bíl sem sá látni átti, að sögn Celinu Leao, aðstoðarríkisstjóra Brasilíuborgar. Nokkrum sekúndum síðar sprengdi maðurinn sig upp fyrir framan dómshúsið.
Hæstaréttardómurunum var komið í öryuggt skjól þegar sprengingarnar hófust. Sprengjusérfræðingar lögreglu notuðu vélmenni til þess að rannsaka þær, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Lögregla hefur enn ekki borið kennsl á manninn en óttast var að fleiri sprengjur væri að finna á líkinu. Að svo stöddu er talið að hann hafi verið einn að verki. Leao sagði þó ekki hægt að útiloka að hann hefði átt sér samverkamenn.
Torg þriggja greina ríkisvaldsins sem tengir höfuðstöðvar þriggja greina brasilísku alríkisstjórnarinnar var vettvangur óeirða stuðningsmanna Jairs Bolsonaro, fyrrverandi forseta, í fyrra. Þeir gengu berserksgang í stjórnarbyggingum til þess að mótmæla tapi hans í forsetakosninum í anda stuðningsmanna Donalds Trump í Bandaríkjunum árinu fyrr.
Sprengingarnar í gær eru sagðar vekja um áleitnar spurningar um öryggismál í Brasilíu í aðdraganda leiðtogafundar G20-ríkjanna sem á að hefjast í Ríó í næstu viku og opinberrar heimsóknar Xi Jinping, forseta Kína, til höfuðborgarinnar skömmu síðar.