Handbolti

FH-ingar í fínum gír án Arons

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson fór fyrir sínu liði í fyrri hálfleiknum.
Ásbjörn Friðriksson fór fyrir sínu liði í fyrri hálfleiknum. vísir / anton brink

FH-ingar áttu ekki í miklum vandræðum með að tryggja stöðu sína á toppi Olís deildar karla í handbolta í kvöld en þeir unnu þá öruggan 36-25 sigur á KA-mönnum.

FH náði með þessum sigri tveggja stiga forskoti á Aftureldingu og Fram en Mosfellingar eiga leik seinna í kvöld.

FH-liðið hefur verið í góðum gír að undanförnu þrátt fyrir að hafa misst landsliðsfyrirliðann Aron Pálmarsson út í atvinnumennsku. Þetta var þriðji sigur liðsins í síðustu fjórum leikjum.

FH var sex mörkum yfir í hálfleik á móti KA í kvöld, 18-12, og vann að lokum með ellefu marka mun.

Það voru margir að skila hjá FH-liðinu í kvöld. Ásbjörn Friðriksson skoraði fimm mörk í fyrri hálfleiknum en markahæstur var Birgir Már Birgisson með átta mörk. Jón Bjarni Ólafsson og Jóhannes Berg Andrason skoruðu fimm mörk eins og Ásbjörn.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði sex mörk fyrir KA og hinn ungi Dagur Árni Heimisson var með fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×