Handbolti

Anna Karó­lína varði þrjú víti en það dugði ekki til

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Karólína Ingadóttir varði þrjú vítaskot frá Selfyssingum í kvöld.
Anna Karólína Ingadóttir varði þrjú vítaskot frá Selfyssingum í kvöld. Vísir/Diego

Selfosskonur fóru heim með bæði stigin eftir sigur á Gróttu í Olís deild kvenna í handbolta í kvöld.

Selfoss vann leikinn 20-18 eftir að hafa verið 12-9 yfir í hálfleik.

Gróttukonur unnu óvæntan sigur á ÍBV í síðasta leik en náðu ekki að fylgja því eftir í kvöld.

Anna Karólína Ingadóttir, markvörður Gróttu, varði þrjú víti og fjórtán skot í leiknum en það dugði ekki til.

Eva Lind Tyrfingsdóttir, Katla María Magnúsdóttir og Harpa Valey Gylfadóttir skoruðu allar fimm mörk fyrir Selfoss í kvöld. Cornelia Linnea Hermansson varði líka sautján skot í markinu.

Ída Margrét Stefánsdóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir voru markahæstar hjá Gróttu með fjögur mörk hvor.

Selfossliðið er í fjórða sæti deildarinnar með átta stig en Grótta er á botninum með fjögur stig.

Þetta var síðasti leikur liðanna fyrir EM- og jólafrí en næstu leikir eru ekki fyrr en í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×