Skoðun

Útrýmum kjaragliðnun

Jónína Björk Óskarsdóttir skrifar

Samkvæmt 62. gr. laga um almannatryggingar skulu örorkulífeyrir og ellilífeyrir breytast árlega í samræmi við fjárlög og skal ákvörðun þeirra taka mið af launaþróun, en þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þessi regla var upphaflega leidd í lög árið 1997 með því markmiði að tryggja að öryrkjar og ellilífeyrisþegar myndu njóta hækkunar á ráðstöfunartekjum í sama hlutfalli og almenningur.

Eins og kom fram í þingræðu þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, átti viðmiðunin að vera við laun. En svo var annar varnagli settur á svo að ef laun hækka minna en verðlag vísitölu neysluverðs þá væri hægt að miða við hærri töluna.

Það er þó ljóst að framkvæmdin hefur verið allt önnur. Meginreglan virðist vera sú að vísitölu neysluverðs sé fylgt þó að hún hækki mun minna en vísitölur launa. Þetta hefur því leitt til kjaragliðnunar á milli örorku- og ellilífeyris almannatrygginga annars vegar og launaþróunar hins vegar. Eins og kom fram í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka, sem barst í desember 2022, við frumvarp Flokks fólksins um lagfæringu á þessu kerfi, þá vantar tæpar 71 þúsund krónur í mánaðarlega fjárhæð örorkulífeyris þar sem ekki hefur verið miðað við almenna launaþróun, og það er kjaragliðnun sem átti sér stað á árunum 2007-2022 - síðan eru liðin tvö ár og eflaust er því bilið breiðara í dag. Alltaf er tekið af þeim sem síst skyldi og minnst hafa.

Það er brýn þörf á að leiðrétta 62. gr. (áður 69. gr.) almannatryggingalaganna þannig að lögin tryggi með viðhlítandi hætti að kjör lífeyrisþegar fylgi launaþróun. Við í Flokki fólksins ætlum að tryggja að það verði aldrei geðþóttaákvörðun stjórnmálamanna sem ráði því hvort greiðslur til almannatryggingaþega fylgi launaþróun eða vísitölu neysluverðs. Flokkur fólksins mun bæta hag almennings og þeirra sem bágast standa í samfélaginu.

Það er komið að þér

Höfundur skipar 2. sæti á lista Flokks fólksins í suðvesturkjördæmi




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×