Atvikið átti sér stað síðla föstudags á sjúkrahúsi í borginni Jhansi í Uttar Pradesh-fylki. Ráðamenn segja að eldurinn hafi breiðst hratt út um deildina þar sem 55 ungbörn voru meðhöndluð. Alls var 45 börnum bjargað og þeim veitt læknishjálp, að sögn Bimal Kumar Dubey, embættismanns á staðnum.
Upphaf rannsóknar á eldsupptökum er sögð benda til að öryggisreglum hafi ekki verið fylgt eftir. Mátti finna á deildinni ónothæft slökkvitæki og óvirkar brunavarnir sem embættismenn segja hafa tafið björgunartilraunir.
AP-fréttaveitan greinir frá þessu. Brajesh Pathak, aðstoðaryfirráðherra fylkisins, heimsótti sjúkrahúsið og hitti þar fjölskyldur í dag. Hét hann stuðningi stjórnvalda við fjölskyldur fórnarlambanna. Yfirvöld hyggjast skera úr um orsök eldsins og hverjir beri þar ábyrgð.
Pathak bætti við að DNA-rannsóknir yrðu notaðar til að bera kennsl á börnin sem fórust í brunanum og lík þeirra síðan afhent fjölskyldum þeirra.t
Brunaviðvörunarkerfi hafi ekki farið í gang
Eldurinn breiddist hratt út um nýburadeildina og þegar slökkviliðið kom á vettvang var eldur og reykur í húsnæðinu. Þá þurftu viðbragðsaðilar að brjóta sér leið inn um glugga til að ná til nýfæddu barnanna. Sjónarvottar segja að björgunaraðgerðirnar hafi byrjað um það bil 30 mínútum eftir að eldurinn kom upp og tafði það rýmingu.
Praminder Singh Chandel, sjúkraliði á sjúkrahúsinu, sagði að deildinni hafi verið skipt upp í tvennt og var önnur einingin staðsett nær sjúkrahúsinngangi. Börnin sem þar voru staðsett urðu hvað mest fyrir áhrifum eldsins en nokkur létust af völdum brunasára.
Hneykslaðir og syrgjandi fjölskyldumeðlimir tjölduðu nálægt sjúkrahúsinu í dag og kröfðust skýringa á því sem þeir telja vera ófullnægjandi öryggisráðstafanir.
Þrátt fyrir að brunaviðvörunarkerfi hafi verið á gjörgæsludeildinni sögðu foreldrar og vitni að það hafi ekki farið í gang þegar eldurinn kviknaði. Starfsfólk spítalans hafi því aðeins orðið vart við eldsvoðann þegar það sá merki um reyk og eld.