Handbolti

Góður enda­sprettur tryggði Haukum fína stöðu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elín Klara skoraði þrjú mörk í dag.
Elín Klara skoraði þrjú mörk í dag. Vísir / Hulda Margrét

Kvennalið Hauka í handknattleik vann í dag eins marks sigur á króatíska liðinu Dalmatinka þegar liðin mættust í fyrri leik einvígis síns í EHF-bikarnum.

Báðir leikir liðanna verða spilaðir ytra en leikurinn í dag er skráður sem útileikur Hauka. Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en heimakonur í Dalmatinka náðu áhlaupi um miðjan fyrri hálfleikinn og komust í 10-6. 

Staðan í hálfleik var 13-10 og leikurinn ennþá galopinn. Heimaliðið var áfram með frumkvæðið í upphafi síðari hálfleiks. Þegar tíu mínútur voru eftir var staðan 21-18 fyrir króatíska liðið en Haukakonur áttu frábæran endasprett.

Í stöðunni 23-21 skoruðu Haukar þrjú mörk í röð sem reyndust þrjú síðustu mörk leiksins. Lokatölur 24-23 fyrir Hauka sem þar með eru með eins marks forystu fyrir síðari leik liðanna sem fram fer á morgun.

Rakel Oddný Guðmundsdóttir var markahæst hjá Haukum í dag með sex mörk, Alexandra Líf Arnarsdóttir skoraði fjögur og þær Elín Klara Þorkelsdóttir, Inga Dís Jóhannsdóttir og Sonja Lind Sigsteinsdóttir þrjú mörk hver. 

Fyrr í dag tryggðu Valskonur sér sæti í næstu umferð EHF-bikarsins eftir góðan sigur í einvíginu gegn sænska liðinu Kristianstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×