Fótbolti

Meiddi sig eftir mis­heppnað siuu fagn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aleksa Terzic kennir sér meins eftir mislukkað fagn sitt.
Aleksa Terzic kennir sér meins eftir mislukkað fagn sitt. epa/til buergy

Aleksa Terzic var hetja Serbíu gegn Sviss í Þjóðadeildinni í fyrradag. Hann skoraði jöfnunarmark Serba tveimur mínútum fyrir leikslok en meiddi sig í fagnaðarlátunum.

Svisslendingar komust yfir á 78. mínútu með marki Zekis Amdouni en Terzic jafnaði tíu mínútum seinna og tryggði Serbum stig.

Terzic ákvað að fagna markinu eins og Cristiano Ronaldo gerir jafnan; hið svokallaða siuu fagn þar sem hann hleypur, stekkur upp, snýr sér í loftinu og lendir síðan á dramatískan hátt.

Terzic á greinilega ýmislegt eftir ólært þegar kemur að fagninu fræga því fætur hans gáfu sig og hann lenti illa. Terzic fann greinilega til og var tekinn af velli eftir markið og fagnið misheppnaða.

Markið gegn Sviss var fyrsta mark Terzic fyrir serbneska landsliðið, í sjöunda landsleiknum. Vinstri bakvörðurinn leikur með Red Bull Salzburg í Austurríki.

„Mér hefur dreymt um svona mark,“ sagði Terzic eftir leikinn. „Ég gerði mitt besta til að hjálpa liðinu. Þegar við allir gefum allt sem við eigum í leikina uppskerum við. Draumur minn hefur ræst svo lengi sem það eru engin meiðsli.“

Serbía er með fimm stig í 3. sæti riðils 4 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Liðið mætir Danmörku á morgun í úrslitaleik um 2. sætið í riðlinum og þar með sæti í átta liða úrslitum Þjóðadeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×