Skoðun

Vinnum gullið án klósettpappírs

Ásmundur Einar Daðason skrifar

Öll vitum við hversu mikilvægar íþróttir og hreyfing eru fyrir heilsuna. Regluleg hreyfing dregur verulega úr hættu á langvinnum sjúkdómum, hefur jákvæð áhrif á geðheilsu, stuðlar að betri svefni og minnkar streitu, svo eitthvað sé nefnt. En ávinningurinn er ekki aðeins heilsufarslegur heldur einnig félagslegur. Íþróttir kenna okkur gildi eins og samvinnu, virðingu og ábyrgð. Þær byggja upp félagsfærni, styrkja sjálfsmynd og stuðla að betri samskiptum.

Afreksfólk á heimsvísu 

Um nýliðna helgi varð Sóley Margrét Jónsdóttir heimsmeistari í kraftlyftingum í sínum þyngdarflokki og skráði sig um leið í sögubækurnar sem fyrsti íslenski heimsmeistarinn í kraftlyftingum. Þetta var ekki eina íslenska íþróttaafrekið sem vannst um síðustu helgi því að þau Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza unnu fyrstu verðlaun Íslands í parakeppni á listskautum og eru á leið á EM í janúar. Fyrir fjórum vikum fögnuðu íslenska kvennalandsliðið og blandað lið ungmenna Evrópumeistaratitli í hópfimleikum og í lok október var Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í 22. sæti yfir bestu fótboltakonur heims í kjörinu um Gullboltann.

Fjárfest í árangri 

Þetta eru aðeins nokkur nýleg dæmi um stórkostlegan árangur íþróttafólksins okkar hér á Íslandi. En það er ekki sjálfgefið að ná langt í íþróttum, það kostar blóð, svita og tár – og síðast en ekki síst mjög mikla peninga. Í janúar 2023 setti ég af stað vinnu sem leidd var af Vésteini Hafsteinssyni, sem samhliða var ráðinn afreksstjóri ÍSÍ. Hópurinn hafði það hlutverk að leggja fram tillögur sem myndu efla og styrkja íslenskt afreksstarf í sinni víðustu mynd hér á landi og bæta stöðu og réttindi afreksíþróttafólks.

Faglegri umgjörð umbylt 

Fjárframlag til afreksíþrótta verður stóraukið á næsta ári svo að hægt verði að umbylta umgjörð afreksíþróttafólks. Í fjárlögum, sem samþykkt voru á Alþingi í gær, verður 637 milljónum varið til eflingar afreksíþrótta sem er um það bil tvöföldun á því fjármagni sem áður fór í afreksstarfið. Ný Afreksmiðstöð Íslands mun sjá um að efla faglega umgjörð afreksstarfs á sem flestum sviðum í nánu samstarfi við sérsambönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Átta nýjar svæðisstöðvar 

Afreksmiðstöðin verður í nánu samstarfi við átta nýjar svæðisstöðvar íþrótta um land allt sem þegar eru komnar í gagnið. Svæðisstöðvarnar þjónusta íþróttastarf í sínu nærumhverfi og geta með skilvirkum hætti aukið íþróttaþátttöku barna og ungmenna með sérstakri áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Nýr hvatasjóður barna

Nýjum hvatasjóði barna fyrir íþróttahreyfinguna verður falið að deila árlega um 80 milljónum króna til verkefna hjá íþróttafélögunum sem er gagngert ætlað að efla íþróttaþátttöku barna.

Stuðningur við yngri landslið

Hluta af stórauknu fjárframlagi til afreksíþrótta verður jafnframt varið í að styðja sérstaklega við þátttöku yngri landsliða í landsliðsverkefnum. Íslenskt landsliðsfólk á ekki að þurfa að fjármagna landsliðsferðir með því að selja klósettpappír í bílförmum þrátt fyrir að allar þessar rúllur séu að sjálfsögðu ætíð vel þegnar á heimilum landsins!

Ný mannvirki á framkvæmdastigi

En landsliðsfólkið okkar á heldur ekki að þurfa að keppa í úreltum mannvirkjum sem mæta ekki alþjóðlegum kröfum. 1.500 milljónir króna fara þannig í uppbyggingu þjóðarleikvanga og er ný Þjóðarhöll í innanhúsíþróttum í Laugardal komin á hönnunar- og framkvæmdastig. Endurbætur á Laugardalsvelli eru hafnar og nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum í Laugardal er sömuleiðis í undirbúningi. 

Greiðum leiðina 

Á næstu dögum mun stór hluti þjóðarinnar hvetja íslenska kvennalandsliðið í handbolta til dáða þegar þær hefja leik á EM. Landsliðskonurnar eiga það allar sameiginlegt að hafa lagt líf og sál í að komast á þetta stóra svið. Það er góð áminning fyrir okkur að það dugir ekki bara að hvetja okkar besta íþróttafólk áfram þegar markmiðunum er náð. Það þarf að styðja þau á vegferðinni og búa til faglega umgjörð svo leiðin verði greiðari.

Betri framtíð án lakkríssölu

Með aukinni fjárfestingu í afreksíþróttum tryggjum við ekki aðeins betri framtíð þeirra sem keppa á stærsta sviðinu. Við búum líka til umgjörð fyrir íþróttasamfélagið allt og sýnum börnunum okkar að það er hægt að stefna á toppinn og vinna gullið – og það án þess að þurfa að selja klósettpappír og lakkrís í kílóavís til að komast í landsliðsverkefni.

Ekki bara loforð heldur aðgerðir 

Ég er stoltur af því að geta staðið við góðar fyrirætlanir með því að taka til aðgerða og hefja framkvæmdir. Þetta ferðalag er rétt að byrja og mig langar að halda áfram að byggja upp öfluga íþróttamenningu á Íslandi.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra og skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík norður.




Skoðun

Sjá meira


×