Þetta kemur fram í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Grindavíkur en deildin kallar eftir sjálfboðaliðum í verkefnið sem er fjáröflun fyrir hana.
Þrátt fyrir eldgos og jarðhræringar, sem neytt hafa Grindvíkinga til að flytja í burtu úr bænum sínum, þá hafa þeir haldið áfram íþróttastarfi sínu og körfuknattleiksdeildin er með öflug lið á sínum snærum, bæði í Bónus-deild karla og kvenna.
Fjáröflunin um helgina er liður í að halda starfinu áfram og í tilkynningu eru Grindvíkingar hvattir til að hjálpa til með því að ganga um bæinn og sækja ruslatunnur, á laugardag og sunnudag.
Grindvíkingar hafa eins og fyrr segir haldið áfram að tefla fram íþróttaliðum og eru körfuboltaliðin þeirra með heimavöll í Smáranum í Kópavogi. Þar hafa þeir safnast saman á leikjum og nýtt tækifæri til að hittast, og myndað góða stemningu.
Kvennalið Grindavíkur verður einmitt á ferðinni í kvöld þegar það glímir við topplið Hauka klukkan 19:15, en karlaliðið er í fríi vegna landsleikja og á svo næst tvo útileiki áður en liðið spilar næst í Smáranum gegn Val, 13. desember.