Körfubolti

Þjálfaraskipti hjá ÍR og Fjölni í körfunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Baldur Már Stefánsson vann eina leikinn sem hann stýrði sem aðalþjálfari í Bónus deild karla í körfubolta í vetur.
Baldur Már Stefánsson vann eina leikinn sem hann stýrði sem aðalþjálfari í Bónus deild karla í körfubolta í vetur. Vísir/Vilhelm

Baldur Már Stefánsson er nýr þjálfari Fjölnis í 1. deild karla í körfubolta og mun stýra liðinu út tímabilið.

Baldur Már hefur síðustu tvö tímabil verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá ÍR ásamt því að hafa stýrt drengja- og unglingaflokki ÍR.

Hann stýrði ÍR til sigurs í Njarðvík í Bónus deildinni á dögunum þegar hann leysti af Ísak Mána Wium sem sagði starfi sínu lausu eftir sex tapleiki í fyrstu sex leikjunum.

Baldur fékk þó ekki starfið hjá ÍR heldur sömdu Breiðhyltingar við Borce Ilievski.

Borce hætti hjá Fjölni og tók við ÍR-ingum. Fjölnismenn leituðu til Baldurs og hafa félögin því haft þjálfaraskipti.

Áður en Baldur gekk til liðs við ÍR starfaði hann í Fjölni sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í tvö ár auk þess að stýra drengja- og unglingaflokki. Hann þekkir því til í Grafarvoginum.

Að auki hefur Baldur komið víða við í þjálfun, þar á meðal hjá Stjörnunni og Breiðabliki.

Hann hefur einnig starfað sem aðstoðarþjálfari hjá yngri landsliðum Íslands og unnið með ungum og efnilegum leikmannahópum.

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir verkefninu. Ég átti tvö frábær ár hérna í Grafarvoginum og líður mjög vel að koma aftur inn í Dalhús. Þetta er skemmtilegur leikmannahópur og ég hlakka mikið til að hefjast handa og byrja að vinna með þessum strákum,“ sagði Baldur í fréttatilkynningu frá Fjölni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×