Erlent

Siðanefndin klofin í máli Gaetz en gögn farin að leka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir eru efins um að öldungadeildin muni staðfesta tilnefningu Gaetz.
Margir eru efins um að öldungadeildin muni staðfesta tilnefningu Gaetz. AP/Alex Brandon

Siðanefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins er klofin eftir flokkslínum varðandi það hvort birta eigi skýrslu um rannsókn nefndarinnar á meintum brotum Matt Gaetz.

Gaetz, þingmaður Repúblikanaflokksins, sætti rannsókn bæði af hálfu ákæruvaldsins og siðanefndinni vegna ásakana um ýmis brot, meðal annars að hafa haft samfarir við barn undir lögaldri. Hann sagði hins vegar af sér eftir að Donald Trump tilnefndi hann dómsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn sinni.

Deilurnar í siðanefndinni snúast þannig um það hvort birta eigi skýrsluna, sem var svo gott sem tilbúin þegar Gaetz var tilnefndur, en nefndin hefur ekkert boðvald lengur yfir honum nú þegar hann er hættur.

Gaetz mun þurfa að sæta yfirheyrslu öldungadeildarþingmanna sem munu ráða því hvort hann verður skipaður. Ljóst þykir að meint brot hans munu verða þar til umræðu.

Óháð því hvort skýrsla siðanefndarinnar verður birt eru gögn þegar farin að leka, meðal annars frá rannsókn ákæruvaldsins.

Það lét mál Gaetz niður falla en hafði áður kortlagt greiðslur frá þingmanninum fyrrverandi og félögum hans til hvors annars og kvenna, sem grunur leikur á um að mennirnir hafi greitt fyrir kynlíf.

New York Times hefur birt mynd sem sýnir hvernig greiðslur gengu á milli um greiðsluforritið Venmo, meðal annars frá Gaetz til tveggja kvenna sem báru vitni um að hann hefði greitt þeim fyrir kynlíf.

Fólkið er sagt tengjast í gegnum „kynlífspartý“ sem voru haldin á árunum 2017 til 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×