Mannanafnanefnd kvað upp þrjá úrskurði í gær. Beiðni um eiginnafnið Gandri var samþykkt og verður nafnið fært á mannanafnaskrá. Sömu sögu er að segja um Bretting sem eiginnafn.
Sá sem sótti um Bretting óskaði fyrst eftir því að fá að nota nafnið sem millinafn en til vara um nafnið sem eiginnafn. Mannanafnanefnd hafnaði Brettingi sem millinafni.
„Millinafnið Brettingur er dregið af íslenskum orðstofni, hefur ekki unnið sér hefð sem eiginnafn og getur ekki orðið nafnbera til ama. Þá er nafnið ekki ættarnafn. Í máli þessu reynir hins vegar á 1. lið skilyrðanna. Millinafnið Brettingur hefur nefnifallsendinguna -ur og fullnægir þess vegna ekki skilyrðum laga um mannanöfn,“ segir í úrskurði nefndarinnar.
Eiginnafnið Brettingur í karlkyni tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Brettings, og uppfyllir að öðru leyti ákvæði 5. greinar laga um mannanöfn. Var beiðninni um Bretting sem eiginnafn því samþykkt.
Þá var beiðni um millinafnið Úlfberg samþykkt.
„Millinafnið Úlfberg er dregið af íslenskum orðstofni, hefur ekki nefnifallsendingu, ekki unnið sér hefð sem eiginnafn og getur ekki orðið nafnbera til ama. Þá er nafnið ekki ættarnafn og uppfyllir því skilyrði 6. gr. laganna.“