Skoðun

Betri Strætó 2025 og (svo) Borgar­lína

Dagur B. Eggertsson skrifar

Alþingi samþykkti fjárlög á mánudag og staðfesti þar með aukin framlög til Strætó fyrir næsta ár. Það er í samræmi við uppfærðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þetta þýðir að Strætó mun hefja innleiðingu á nýju leiðarkerfi þegar á næsta ári og auka tíðni á fjölda leiða. Það er gert til að bæta þjónustu, gera Strætó að betri valkosti fyrir fleiri og hefja sókn í almenningssamgöngum sem standa mun næstu ár, fram að þeim tíma sem Borgarlína mun byrja að keyra.

Hver er breytingin á næsta ári?

Nú búa um 93% íbúa á höfuðborgarsvæðinu innan við 400 m frá strætóstöð. Aðeins 16% íbúa búa hins vegar innan við 400 m frá leið sem ekur á 10 mínútna tíðni eða oftar á annatíma. Með eflingu Strætó á næsta ári mun þetta gjörbreytast. Í stað þess að 16% íbúa búi nærri stöð þar sem tíðni er 10 mínútur eða oftar á annatíma nær þessi bætta þjónusta til 50% allra íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þetta leiðir af aukinni tíðni á leiðum 3, 5, 6 og 12, auk leiðar 1. Tíðni verður einnig aukin á leiðum 19, 21 og 24 sem munu nú aka á 15 mínútna fresti.

Borgarlínu-framkvæmdir hefjast

Útboð fyrir Fossvogsbrú hefur verið auglýst og umhverfismat Borgarlínu jafnframt. Framkvæmdir við fyrsta áfanga Borgarlínu hefjast á næsta ári. Efling Strætó og tilkoma Borgarlína verður sú bylting í gæðum almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sem lengi hefur verið kallað eftir. Til viðbótar fól uppfærsla sáttmálans í sér stóraukin framlög til heildstæðs 100 km nets hjólastíga sem verða 36 milljarðar. Miklabraut mun fara í göng frá Grensásvegi til Landspítala sem mun hafa í för með sér lífsgæðabyltingu í Hlíðum og Háaleitishverfum.

Bylting fyrir alla ferðamáta

Samgöngusáttmálinn var lengi í fæðingu en er nú staðreynd. Honum þarf þó að fylgja fast eftir á Alþingi Íslendinga og í sveitarstjórnum og leita allra leiða til að flýta framkvæmdum hans. Þegar Borgarlina og stórefling Strætó skv. nýju leiðarkerfi hefur komist til framkvæmda munu alls 71% íbúa höfuðborgarsvæðisins búa innan við 400 m frá leiðum með 7-10 mínútna tíðni. Umferðin mun batna. Hljóðvist og loftgæði líka. Að ógleymdum jákvæðum áhrifum á útgjöld heimilanna að hafa öfluga valkosti af öllu tagi. Og áhrifin verða líka jákvæð fyrir þau sem keyra bíl. Og ganga eða hjóla. Við fáum í stuttu máli betri Reykjavík og betra og samkeppnishæfara höfuðborgarsvæði.

Höfundur er frambjóðandi Samfylkingarinnar til Alþingis í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Sjá meira


×