Körfubolti

„Eins og þeim finnist ekkert gaman að spila körfu­bolta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grindavík - Vaæur Bónus Deild Kvenna Haust 2024
Grindavík - Vaæur Bónus Deild Kvenna Haust 2024 vísir/diego

Sérfræðingar Bónus Körfuboltakvölds kvenna segja að það skorti leikgleði hjá Val og hugarfar liðsins sé ekki nógu gott. 

Valur tapaði fyrir Stjörnunni á heimavelli á miðvikudaginn, 66-81. Valskonur hafa tapað þremur leikjum í röð og eru á botni Bónus deildar kvenna með einungis fjögur stig.

Pálína Gunnlaugsdóttir segir að ánægjan skíni ekki beint úr andlitum leikmanna Vals.

„Þetta var einhver meðalmennska. Hvar er stoltið? Mér líður eins og þeim finnist ekkert gaman að spila körfubolta. Eiga þetta ekki að vera skemmtilegustu stundirnar? Til hvers ertu að æfa sex daga vikunnar og leggja allt þetta á þig, myndbandsfundina, keyrsluna og allt? Mér finnst vanta mikið upp á þetta Valslið,“ sagði Pálína í Bónus Körfuboltakvöldi.

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld - Umræða um Val

Valsliðið var aðeins með tíu prósent þriggja stiga nýtingu í leiknum í fyrradag.

„Þetta eru allt leikmenn sem eiga að setja þetta niður. Alyssa [Cerino] á líka að vera góð skytta. Hún hitti ekki hringinn þarna. Þetta var mjög erfitt. En þetta er hausinn; þetta er sjálfstraustið. Til að fá sjálfstraustið þarftu að leggja vinnuna á þig. Taktu auka skotin, gerðu það í ójafnvægi, í leikaðstæðum og hafðu smá stolt. Ég er sammála Pálínu að það vantar hugarfar,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir.

Næsti leikur Vals er gegn Njarðvík suður með sjó á þriðjudaginn.

Innslagið úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×