Gylfi, sem er 35 ára gamall, var sennilega besti maður Vals í sumar og skoraði 11 mörk í 19 deildarleikjum fyrir liðið, á sinni fyrstu leiktíð í efstu deild hér á landi.
Í lok tímabilsins gaf hann til kynna að hann myndi mögulega leggja skóna á hilluna, og hann gaf svo ekki kost á sér í landsleiki Íslands við Svartfjallaland og Wales í þessum mánuði.
Gylfi, sem er markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 27 mörk í 83 leikjum, er hins vegar með samning við Val sem gildir út næstu leiktíð. Hann mun því að óbreyttu spila með liðinu í Bestu deildinni næsta sumar, sem og í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu og í Mjólkurbikarnum.
Ekki raunsætt að fá Gylfa á lágu verði
Víkingar hafa áhuga á að fá Gylfa í sínar raðir og reyndu að fá hann fyrir nýafstaðið tímabil, þegar Gylfi hafði ákveðið að snúa heim til Íslands. Þeir gerðu svo tilboð í Gylfa nú á dögunum en frá því greindi 433.is í gær.
Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, staðfesti þetta svo við Fótbolta.net en sagði tilboðinu hafa verið hafnað og að hann ætti ekki von á frekari viðræðum við Víkinga vegna Gylfa.
„Við lítum reyndar meira á það [tilboðið sem barst] sem grín. Ef Víkingur heldur að þeir geti keypt Gylfa á lágu verði þá finnst okkur það ekki raunsætt,“ sagði Björn Steinar við Fótbolta.net.