Íslenski boltinn

Óli Valur til Blika og sagður sá dýrasti á Ís­landi

Sindri Sverrisson skrifar
Óli Valur Ómarsson er kominn í grænt og spilar með Breiðabliki á næstu leiktíð.
Óli Valur Ómarsson er kominn í grænt og spilar með Breiðabliki á næstu leiktíð. Breiðablik

Íslandsmeistarar Breiðabliks kynntu í dag Óla Val Ómarsson sem nýjasta leikmann liðsins en hann kemur til félagsins frá Sirius í Svíþjóð, eftir að hafa spilað með Stjörnunni í sumar. Samningur hans við Breiðablik gildir til ársins 2028.

Óli Valur er uppalinn hjá Álftanesi og Stjörnunni og á að baki 59 leiki í efstu deild fyrir Stjörnuna, og hefur skorað í þeim sex mörk. Þessi 21 árs gamli leikmaður skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna í sumar sem lánsmaður frá Sirius en hann fór upphaflega til sænska félagsins á miðju sumri 2022.

Stjarnan sóttist einnig eftir því að fá Óla Val núna, eftir að ljóst var að hann hefði hug á að snúa aftur heim til Íslands.

Helgi Hrannarr Jónsson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Stjörnunni, sagði í viðtali við Fótbolta.net á fimmtudag að félagið hefði fengið samþykkt tilboð í Óla Val, ásamt fleiri félögum. Stjörnumenn hefðu svo farið í samningaviðræður við leikmanninn og nýjan umboðsmann hans en Óli á endanum valið Breiðablik, og fullyrti Helgi að Óli hefði ákveðið að fara til Íslandsmeistaranna vegna þess að þeir hefðu boðið fjárhagslega besta tilboðið.

„Óli er, þegar allt er talið, dýrasti leikmaður sem íslenskt félag kaupir, þori ég að fullyrða og verðið hærra en erlend félög voru tilbúin að greiða,“ sagði Helgi Hrannarr og viðurkenndi að það væru vonbrigði að Óli hefði valið Breiðablik fram yfir Stjörnuna.

Óli Valur, sem er 21 árs gamall, á að baki 28 leiki fyrir yngri landslið Íslands og hefur skorað í þeim tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×