Þýskir fjölmiðlar greina frá þessu í dag, en deilur hafa staðið um það innan Jafnaðarmannaflokksins (SPD) síðustu vikur um það hvort að flokkurinn ætti að fylkja sér að baki Scholz eða varnarmálaráðherrann Boris Pistorius.
Skoðanakannanir benda til þess að Pistorius sé nú vinsælasti stjórnmálamaður landsins, en hann tilkynnti í síðustu viku að hann myndi ekki sækjast eftir að verða kanslaraefni Jafnaðarmannaflokksins og lýsti yfir stuðningi við Scholz. Vinsældir kanslarans Scholz hafa farið mjög dvínandi eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið.
Pistorius er einn af 33 háttsettum mönnum innan Jafnaðarflokksins sem hyggjast greiða atkvæði með því á flokksráðsfundi að Scholz verði tilnefndur sem kanslaraefni flokksins i kosningunum. Landsfundur SPD, sem fyrirhugaður er 11. janúar næstkomandi, mun svo formlega staðfesta Scholz sem kanslaraefni, en einungis er um formsatriði að ræða.
Þingkosningar verða haldnar í Þýskalandi 23. febrúar eftir þriggja flokka samsteypustjórn Jafnaðarmanna, Frjálsra demókrata og Græningja sprakk fyrr í þessum mánuði.
SPD mælist nú með um fimmtán prósent í skoðanakönnunum á landsvísu sem er um tíu prósentustigum minna en hann fékk upp úr kjörkössunum í kosningum árið 2021.
Friedrich Merz verður kanslaraefni Kristilegra demókrata í kosningunum sem fram undan eru. Þá er Robert Habeck kanslaraefni Græningja og Alica Weidel hjá Valkosti fyrir Þýskaland (AfD).