Skoðun

Við sem förum til Tenerife - Vaxta og húsnæðispyntingar á al­menningi komið frá líf­eyris­sjóðum og leigufélögum

Hreinn Pétursson skrifar

Lífeyrissjóðskerfið á Íslandi er hannað til að úthluta ákveðnum hluta tekna einstaklinga í eigin fjármögnun við starfslok. Þó að þetta kerfi sé ætlað til þess að stuðla að fjárhagslegu öryggi í framtíðinni, þá gerir þessi fjármögnun íbúum í raun þvert á móti erfitt fyrir í dag og fólk upplifir sig m.a þvingað til að borga frekar en að finna fyrir fjárhagslegu öryggi.

Ég hef t.d heyrt í nokkrum einstaklingum sem ætluðu að fá sér skjól yfir höfuð sér og kaupa íbúð. Þessir einstaklingar gerðu tilboð í íbúð sem var hafnað því einn af lífeyrissjóðnum bauð hærra í íbúðina og hrifsaði hana til sín.

Er eðlilegt að skyldusparnaður sem settur er í lög sé úthlutaður til að gera almenningi lífið leitt?

Breyting á lögum sem voru gerð 2018 að lífeyrissjóðir megi eiga 20% hlut í leigufélagi í 50% og að tveir lífeyrissjóðir geta átt 100% í leigufélagi hefur haft þver öfug áhrif miðað við upphaflega stefnu. Auk þess voru rýmkaðar reglur með fjárfestingaheimild lífeyrissjóðina 2022 þar sem hagsmuna samtök heimilina tóku þátt.

Stefnan átti að efla byggingu nýrra íbúða, auka íbúðir í leigu og grynnka á húsnæðisvanda. Í staðinn kaupa lífeyrissjóðir og leigufélög upp allar íbúðir, hækka íbúðaverð, sem skapar síðan verðbólgu og hækkar vexti íbúðalána í landinu. Þeir skilja ekkert eftir fyrir hinn almenna borgara nema sviðna jörð. Gróðrarfíknin er orðin það mikil að lítil sem engin rökrétt hugsun er hjá sjóðum sem almenningur er skyldugur að borga í. Sjóðir sem eiga að hjálpa almenningi, gera það ekki, heldur henda fólki á kné sín og hrifsa af því aleiguna.

Þessi breyting átti aldrei að gerast. Nú geta tveir lífeyrissjóðir komið saman og myndað 100% hlut í hagnaðardrifnu leigufélagi, byggt íbúðir og leigt þær í hagnaðarskyni á meðan fólk þessa lands á erfitt með að kaupa sér íbúð, því íbúðir eru á uppsprengdu verði. Fólk fær ekki lán en þarf samt að greiða hærri leigu á mánuði en lánið sem það fengi af svipaðri íbúð.

Það er gert almenning að föngum leigumarkaðarins

Að hagnast og búa til íbúðaskort í gróðrarskyni ætti að vera ólöglegt. Það á hvergi heima og sérstaklega ekki hjá lífeyrissjóði sem ætti frekar að vera í því hlutverki að hjálpa almenningi þegar harðnar í ári.

Hagnast á rétti almennings til þess að eiga þak yfir höfuð með hagnaðardrifnum leigufélögum. Leigufélög sem gera það að verkum að almenningur á þessu blessaða landi getur aldrei átt íbúð heldur þarf að leigja. Leigja á verði sem er mun dýrara en að borga húsnæðislán af eign sem við eignumst aldrei, á meðan nágranna þjóðir okkar greiða upp íbúðalánið á 15 – 25 árum.

Kerfið er rotið að innan. Það þarf að lækna það af græðginni og gróðrarfíkninni sem er búin að fá að vera viðvarandi hér í mörg ár

Lífeyrissjóðskerfið hefur tekið breytingum frá því það byrjaði. Þær breytingar hafa ekki verið með almenning í huga, heldur er hugsunin nú til þess fallin að græða á almenningi. Gróði fyrir nokkra á kostnað hins almenna borgara, sem í dag er svo vaxta píndur að stór hluti íbúa landsins nær ekki endum saman.

Hagnaður leigufélaga í landinu af leigutekjum er orðinn lygilega hár. Leigufélögin kaupa mikið af íbúðum og hækka þannig fasteignaverð landsins, sem bitnar síðan á hinum almenna borgara. Leigufélögin kaupa húsnæði, setja það í leigu og leigja það svo mun hærra heldur en afborgun af íbúðarláni er. Afleiðingin er sú að leigjendur sitja fastir á leigumarkaði og fá ekki lán til íbúðakaupa.

Lífeyrissjóðir eiga yfir 7500 milljarða. Þeir þurfa samkvæmt lögum að ná 3,5% ávöxtun og fjárfesta svo 60% á innlendum og 40% á erlendum markaði. Lífeyrissjóðir hafa aldrei nýtt sér fulla 40% á erlendum markaði til fjárfestinga. Fjárfesting lífeyrissjóða þarf að skila 262 milljarða króna á ári.152 milljarða á innlendum markaði og innviðum. Til þess að fá út þessa ávöxtun eru milljarðar settir inn í kerfið. Þessar tölur hækka ár hvert þar sem lögum samkvæmt skal raunávöxtun vera 3,5%. Hvernig getur þetta staðist í raunveruleika á litlu landi eins og Íslandi. Lífeyrissjóðir eru orðnir það stórir og fullir af peningum að þegar þeir fjárfesta í innviðum, setja þeir allt á hliðina með verðbólgu og vöxtum.

Breyta þarf leikreglum lífeyrissjóðanna

Það þarf að breyta lögum um að lífeyrissjóðirnir séu skyldugir að skila inn 3,5% raunávöxtun. Þeim þarf að breyta þannig að ávöxtun lífeyrissjóða er frjáls en að hámarki 1,5%. Auk þess eru þeir það stórir í fjármagni, að þegar þeir fjárfesta hérna innanlands, þá setja þeir svo mikið af peningum inn í kerfið að það kné setur almenning með verðbólgu og vöxtum.

Já það er ekki ég og þú eða við sem viljum fara til Tenerife einu sinni á ári. Það er ekki sú ákvörðun að kíkja út í sólina sem lætur verðbólgu og vexti hækka, það eru ekki við sem pínum þjóðina með græðgi annara. Það er vanhæf ríkisstjórn sem hugsar meira um að taka peninga frá almenningi með sköttum og gjöldum sem eru til þess að fylla upp í gatið sem ríkisstjórnin tekur með lánum við prentun peninga frá Seðlabanka Íslands. Kerfið þarf að skila 10/1 sem þýðir það, að fyrir hverja slegna krónu þarf að greiða tíu til baka. Til þess að gera það þarf að hækka skatta, hækka vexti og hækka verðbólgu svo ríkissjóður geti greitt upp lánið sem hann er með. Vaxtagreiðsla af láni ríkissjóðs nemur 100 milljörðum á ári.

Það þarf að snúa við heimildinni að lífeyrissjóðir geti fjárfest 60% innlent og 40% erlent þannig að það verði 40% innlent og 60% erlent til að byrja með. Ég væri sjálfur til í að sjá 20% innlent og 80% erlent. Dæmi eru til þar sem sjóðir hafa verið það stórir að þeim hafi einfaldlega verið bannað að fjárfesta í landinu sem þeir eru í, t.d. norski olíusjóðurinn, hann var orðinn það stór að þegar hann fjárfesti í innviðum Noregs gerðist það sama og er að gerast hér, sjóðurinn setti kerfið á hliðina með hækkun vaxta. Það er öðruvísi þar en gerist hér. Þá setti ríkisstjórn Noregs lög um að norski olíusjóðurinn mætti ekki fjárfesta í Noregi og setti á hann 100% erlenda fjárfestingu.

Það nær engri átt að lífeyrissjóðirnir eigi 7500 milljarða í landi sem nær ekki 400.000 manns. Ef þeir myndu fjárfesta 20% af þeirri upphæð innanlands, þá eru það 52 milljarðar. En upphæðin sem þeim er skyldugt ávaxta innanlands Þarf að skila 157 milljörðum. Það þarf engan sérfræðing til þess að átta sig á því hvað gerist þegar svona upphæð fer inn í peningakerfi landsmanna. Það lætur Ísland koma út sem ein af þeim ríkustu þjóðum í heimi miðað við höfðatölu, þó svo að raunin sé sú að landsmenn þessa lands geta ekki borgað af lánum, heldur rétt skrapa saman pening fyrir mat eða fjármagna neyslu heimilisins með okurlánum til þess að geta lifað út mánuðinn.

Höfundur skipar 4. sæti á lista Lýðræðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×