Bjarni segist hafa átt gott spjall við forsetann verðandi þar sem hann lagði áherslu á vináttu ríkjanna og viðskipti. Bandaríkin séu stærsta einstaka viðskiptaland fyrir íslenskar útflutningsvörur.
„Ég nefndi sérstaklega mikilvægi þess að halda í þetta góða samband og dýpka viðskipti okkar enn frekar. Ræddum einnig Atlantshafsbandalagið, mikilvægi þess fyrir öryggi og varnir á Norður-Atlantshafi og loftrýmisgæsluna. Sömuleiðis mikilvægi áframhaldandi öflugs stuðnings við varnir Úkraínu og leiðina til langvarandi friðar,“ segir Bjarni í færslu um símtalið sem hann birti á síðu sinni á Facebook.
Þar segist hann einnig hafa nefnt velheppnaða alþjóðlega fundi hér á landi. Þar hafi hann sérstaklega tekið fram leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var hér á landi á síðasta ári en sömuleiðis viðburði á borð við fundinn í Höfða árið 1986.
„Trump var sérstaklega áhugasamur um Ísland, bæði sem ferðamannastað og um sögu og menningu okkar. Hann bað fyrir góðum kveðjum til íslensku þjóðarinnar.“