Handbolti

Ás­geir Örn ósáttur: „Held að skýrsla eftir­lits­mannsins sé ekki rétt“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ásgeir Örn var ekki sáttur þegar hann ræddi við Stöð 2 og Vísi.
Ásgeir Örn var ekki sáttur þegar hann ræddi við Stöð 2 og Vísi. Vísir/Hulda Margrét

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, er allt annað en sáttur með að Haukum hafi verið dæmdur ósigur gegn ÍBV í bikarkeppni karla í handbolta. Hann segir að venja sé að betra liðið fari áfram og að Haukar muni áfrýja.

Haukum var í gær dæmdur ósigur gegn ÍBV vegna vandamála við gerð leikskýrslu leiksins. Haukamenn fengu tíðindin þegar þeir lentu í München snemma í gær. Ásgeir Örn ræddi við Val Pál Eiríksson á flugvellinum í München en Haukar eru á leið til Aserbaísjan í áhugavert Evrópuverkefni.

„Mikil vonbrigði. Mjög svekktir með þetta og kom okkur mjög mikið á óvart miðað við hvernig þetta var allt saman,“ sagði Ásgeir Örn eftir að hafa fengið tíðindin.

Hugbúnaðurinn meingallaður

„Mér fannst við vinna leikinn sannfærandi og eiga það fyllilega skilið að fara áfram. Það er í anda leiksins að betra liðið eigi að komast áfram. Maður getur sett spurningamerki við það hvernig maður vill komast áfram í bikarnum en það er ekki mitt að dæma um það.“

„Mér finnst þessi skýrsla sem var send inn af eftirlitsmanni, held að hún sé bara alls ekki sönn. Held hún sé bara ekki rétt.“

„Fyrir utan það er þessi hugbúnaður sem er verið að nota við að skrá inn þessa leikmenn er meingallaður. Það geta öll félög deildarinnar vottað fyrir það að margoft eru menn að skrá inn nöfn og það kemur allt annað út þegar það er verið að prenta skýrsluna.“

„Það er svo ótrúlega margt í þessu sem er meingallað og að láta það bitna svona á okkur finnst mér með ólíkindum,“ sagði Ásgeir Örn áður en hann staðfesti að lokum að Haukar myndu áfrýja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×