Enski boltinn

Kostað Manchester United marga milljarða að skipt um stjóra

Aron Guðmundsson skrifar
Erik ten Hag var látinn taka poka sinn undir lok síðasta mánaðar
Erik ten Hag var látinn taka poka sinn undir lok síðasta mánaðar Vísir/getty

Það kostaði enska úr­vals­deildar­félagið Manchester United því sem nemur rúmum 1,7 milljarði ís­lenskra króna að reka knatt­spyrnu­stjórann Erik ten Hag og starfs­lið hans frá félaginu. Ef litið er á kostnað félagsins við starfslok knattspyrnustjóra frá stjóratíð Sir Alex Ferguson kemur í ljós margra milljarða reikningur.

Frá þessu greinir The Athletic núna í morgun og vitnar í fjórðungsuppgjör enska félagsins sem gert var opinbert í gær. 

Eftir mögur úrslita á tímabilinu var Erik ten Hag sagt upp störfum undir lok síðasta mánaðar og kostaði það Manchester United 10,4 milljónir punda, því sem nemur rúmum 1,7 milljarði íslenskra króna að gera það. 

Portúgalinn Rúben Amorim var ráðinn inn sem knattspyrnustjóri Manchester United í stað Ten Hag og tók hann með sér nokkra samstarfsmenn frá Sporting Lissabon í þjálfarateymið og þurfti Manchester United að reiða fram ellefu milljónir punda, því sem nemur rétt rúmum 1,9 milljarði íslenskra króna í þeim skiptum. 

The Athletic hefur tekið það saman að allt frá því að David Moyes var sagt upp störfum árið 2014, eftir að hafa takið við knattspyrnustjórastöðunni af Sir Alex Ferguson, hefur Manchester United eytt um 70 milljónum punda við að gera upp við knattspyrnustjóra sem reknir eru frá félaginu. Það jafngildir um 12,2 milljörðum íslenskra króna á núvirði. 

Rúben Amorim stýrði Manchester United í fyrsta sinn um síðastliðna helgi er liðið gerði 1-1 jafntefli við Ipswich Town í ensku úrvalsdeildinni. Hann stýrir sínum fyrsta leik á Old Trafford í kvöld þegar að Manchester United tekur á móti norska liðinu Bodo/Glimt í Evrópudeildinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×