Uppgjörið: Noah - Víkingur 0-0 | Víkingur sótti sterkt stig til Jerevan

Hjörvar Ólafsson skrifar
Karl Friðleifur Gunnarsson var öflugur í vinstri vængbakvarðarstöðunni. 
Karl Friðleifur Gunnarsson var öflugur í vinstri vængbakvarðarstöðunni.  Vísir/Anton

Víkingur gerði markalaust jafntefli við FC Noah þegar liðin áttust við í fjórðu umferði í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta karla í Jerevan í Armeníu í kvöld. Víkingur hefur sjö stig eftir fjóra leik og situr í 16. sæti deildarinnar.

Víkingur spilaði leikkerfið 3-4-3 í þessum leik en uppleggið var að spila þéttan varnarleik og reyna svo að særa armenska liðið með skyndisóknum. FC Noah hefur verið sterkt á heimavelli í Evrópukeppni sen liðið hefur haft betur í öllum sex heimaleikjum sem liðið hefur spilað í Evrópukeppni. 

Leikplan Víkings gekk fullkomlega upp en Valdimar Þór Ingimundarson og Danijel Dejan Djuric fengu fín færi til þess að koma Víkingi yfir. Besta færi Víkings kom svo undir lok fyrri hálfleiks þegar Valdimar Þór setti boltann í þverslána. 

Eftir að Valdimar Þór lét skotið ríða af var hann svo straujaður af markverði FC Noah, Aleksey Ploshchadnyi, og Víkingar gerðu réttmæta kröfu um vítaspyrnu. Menelaos Antoniou var ekki á sama máli og eftir VAR skoðun var leikurinn látinn halda áfram. 

Leikurinn lokaðist aðeins í seinni hálfleik og hvorugt liðið fékk opið færi til þess að hirða stigin þrjú og jafntefli niðurstaðan. Sterkt stig hjá Víkingi sem setur liðið í góða stöðu um að tryggja sér þátttökurétt í umspili um sæti í 16 liða úrslitum keppninnar. 

Víkingur hefur sjö stig og situr í 16. sæti deildarinnar en það eru 10 lið með jafn mörg stig og Fossvogspiltar. 

Næsti leikur Víkings í keppninni verður 12. desember þegar sænska liðið Djurgården mætir í Kópavoginn. Von er á fjölmenni frá Svíþjóð og útlit fyrir mikla stemmingu. Djurgården er með sjö stig líkt og Víkingur og mikið er undir í þeim leik sem er í næstsíðustu umferð deildarkeppninnar. 

Atvik leiksins

Víkingar telja sig illa svikna þegar þeir fengu ekki vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Fótunum var kippt undan Valdimar Þór og dómari leiksins hefði hæglega getið bent á vítapunktinn. Fyrr í leiknum hafði Aron Elís Þrándarson einnig kallað eftir vítaspyrnu án þess að fá neitt fyrir sinn snúð.   

Stjörnur og skúrkar

Ingvar Jónsson varði tvisvar sinnum meistaralega í leiknum og var öruggur í öllum sínum aðgerðum. Jón Guðni Fjóluson átti líklega sinn besta leik í Víkingstreyjunni. Aron Elís var einkar öflugur inni á miðsvæðinu. Valdimar Þór var iðinn við að koma sér í færi og hefði með réttu átt að fá víti.  

Dómarar leiksins

Kýpverska dómarateymið með Menelaos Antoniou á flautunni átti gott kvöld fyrir utan fyrrgreint atvik þar sem Valdimar Þór átti að fá vítastpyrnu. Það atvik dregur Kýpverjana niður í sex í einkunni sinni. 

Stemming og umgjörð

Það var kuldalegt um að lítast í Jerevan í kvöld og völlurinn virkaði fremur þungur. Stuðningsmenn FC Noah voru mögulega í óða önn í jólaundirbúningi sínum en það var fámennt og góðmennt á vellinum. Nokkir vaskir Víkingar voru á vellinum sem er aðdáunarvert í ljósi þess langa ferðalagt sem leggja þarf á sig til þess að styðja lið sitt að þessu sinni. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira