Upp­gjörið: Kefla­vík - Grinda­vík 96-104 | Mortensen kláraði Kefl­víkinga

Andri Már Eggertsson skrifar
Daniel Mortensen átti góðan leik í kvöld.
Daniel Mortensen átti góðan leik í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og tóku frumkvæðið. Devon Thomas og Deandre Kane fóru fyrir sínu liði og byrjuðu vel. Gestirnir komust mest átta stigum yfir í fyrsta leikhluta 14-22.

Keflvíkingar voru að klikka á ódýrum sniðskotum á meðan Grindavík var að fá stig eftir sóknarfráköst. Eftir því sem leið á fyrsta leikhluta fór að ganga betur hjá Keflavík og munurinn var aðeins tvö stig eftir fyrsta leikhluta 24-26.

Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta. Eftir að Keflavík komst yfir 38-36 svaraði Grindavík með sjö stigum í röð. Áhlaup Grindavíkur voru lengri og beittari og gestirnir enduðu fyrri hálfleik á 2-12 áhlaupi og voru þrettán stigum yfir í hálfleik 47-60.

Eftir að hafa verið hægir í fyrri hálfleik skrúfuðu heimamenn upp hraðann í seinni hálfleik og fóru að spila betur. Keflvíkingar fóru að hitta betur og eftir sjö stig í röð tók Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, leikhlé í stöðunni 66-70.

Heimamenn héldu áfram að hamra járnið á meðan það var heitt og Keflavík var einu stigi yfir þegar haldið var í fjórða leikhluta 79-78.

Eftir slæman þriðja leikhluta fundu Grindvíkingar sama takt og í fyrri hálfleik þar sem liðið spilaði töluvert betur en Keflavík. Varnarleikur Grindavíkur var öflugur og heimamenn skoruðu ekki stig úr opnum leik í rúmlega fimm mínútur. Grindavík gerði tólf stig gegn aðeins tveimur og komust ellefu stigum yfir 90-101.

Gestirnir unnu að lokum átta stiga sigur 96-104.

Atvik leiksins

Í fjórða leikhluta varði Ty-Shon Alexander, Bandaríkjamaður Keflavíkur, skot með tilþrifum en Grindvíkingar náðu sóknarfrákastinu og refsuðu. Saga leiksins þar sem gestirnir refsuðu ítrekað með körfu eftir sóknarfrákast.

Stjörnur og skúrkar

Daniel Mortensen, leikmaður Grindavíkur, fór á kostum og var stigahæstur með 32 stig. Hann tók einnig 14 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. 

Jarell Reischel, leikmaður Keflavíkur, spilaði sennilega sinn besta leik fyrir félagið en það dugði ekki til. Hann endaði með 18 stig og tók 8 fráköst.

Marek Dolezaj, leikmaður Keflavíkur, var arfa slakur í kvöld og gerði aðeins fimm stig. 

Dómararnir [7]

Dómarar kvöldsins voru Davíð Tómas Tómasson, Jakob Árni Ísleifsson og Ingi Björn Jónsson.

Dómararnir leyfðu vissa hörku í kvöld enda alltaf mikil harka þegar þessi lið eigast við. Dómararnir voru með fulla stjórn á leiknum og misstu hann ekki í neina vitleysu.

Stemning og umgjörð

Keflvíkingar blésu í herlúðra fyrir leik. Patrik Atlason hélt uppi stuðinu fyrir leik og kom stuðningsmönnum í gírinn. Það var góð mæting í Blue-höllina og orkan í húsinu minnti á leik í úrslitakeppninni.

Á morgun eru kosningar og það voru það margir frambjóðendur í Blue-höllinni að það er ekki hægt að telja þá alla upp. 

„Erum að setja saman lið sem getur verið í alvöru baráttu fyrir áramót“

Pétur Ingvarsson var svekktur eftir leikVísir/Anton Brink

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, var svekktur eftir tap kvöldsins.

„Þetta fór frá okkur í fyrri hálfleik og í frákastabaráttunni. Þeir fengu ansi mikið af tækifærum til þess að skora og við þurfum að bæta það,“ sagði Pétur Ingvarsson og hélt áfram að tala um lélegan fyrri hálfleik Keflavíkur.

„Við vorum of mikið að tuða í dómaranum í staðinn fyrir að einbeita okkur af því að gera það sem við erum góðir í að gera.“

Aðspurður út í seinni hálfleik var Pétur ánægður með þriðja leikhluta en svekktur með hvernig liðið fór í sama far í fjórða leikhluta sem tapaði leiknum.

„Við fórum að einbeita okkur að því að spila körfubolta. Við náðum forskotinu þeirra en mögulega var holan orðin of djúp og þetta tók mikla orku frá okkur.“

Keflavík tilkynntu Remu Raitanen sem nýjasta leikmann liðsins fyrir leik. Aðspurður hvort það væri einhver leikmaður á leiðinni frá félaginu sagði Pétur að svo væri ekki. 

 

„Það er ekki stefnan að losa leikmann. Við erum að setja saman lið sem getur verið í alvöru baráttu fyrir áramót. Hilmar Smári er meiddur og Igor er búinn að vera meiddur og við erum að reyna þétta raðirnar,“ sagði Pétur að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira