Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að hann vildi að peningastefnunefnd kæmi saman og lækkaði stýrivexti í ljósi þess að verðbólga hjaðnaði milli mánaða.
Hjöðnunin var þó minni á milli mánaða en viðskiptabankarnir höfðu spáð og að sögn greiningardeildar Landsbankans er aðhald Seðlabankans raunar minna nú en fyrir síðasta fund peningastefnunefndar.
Ekki rétt
Finnbjörn vildi ekki tjá sig um það hvort hann sé bjartsýnn á að Seðlabankinn verði við ákalli um aukafund. En hann sagði það vissulega ekki algengt að boðað sé til slíkra funda.
„Þeir hafa gert það þegar þeir hafa þurft að hækka vexti. Þeir eru seinni til þegar kemur að lækkunum.“
Að sögn Stefáns Jóhanns Stefánsson, ritstjóra Seðlabankans, er það hreinlega rangt. Nefndin hafi aldri komið saman til að hækka stýrivexti.
Nokkrir aukafundir í Covid
Aukafundir hafi verið boðaður í fáein skipti, til að mynda árið 2009. Nefndin hafi síðast komið saman á aukafundum í miðjum heimsfaraldri Covid-19 árið 2020, alls fjórum sinnum.
Á einum þeirra hafi vextir verið lækkaðir, á öðrum tilkynnt um magnbundna íhlutun, á þriðja hafi verið tilkynnt um sérstaka lánafyrirgreiðslu (útvíkkun veðlistans) tengt tilmælum fjármálastöðugleikanefndar og á fjórða hafi verið sameiginleg yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar og peningastefnunefndar um tímabundna veðlánarammann.