„Þetta var mjög stórt og allir sigrar í þessari deild eru mjög mikilvægir og það er alltaf gaman að vinna hér í Keflavík. Það var erfitt að fara með óbragð í munninn inn í pásuna en að koma svona til baka gefur okkur helling,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson eftir leik.
Grindavík var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og barátta liðsins skein í gegn sem gerði það að verkum að gestirnir voru þrettán stigum yfir í hálfleik 47-60.
„Við vorum mjög góðir í fyrri hálfleik og orkustigið var hátt og þá komum við með áhlaup. Varnarlega vorum við að gera vel og það var mikið af auðveldum körfum sem fylgdu í kjölfarið.“
Eftir flottan fyrri hálfleik voru Keflvíkingar betri í þriðja leikhluta og heimamenn voru yfir þegar haldið var í síðustu lotu.
„Við töluðum um það í hálfleik að byggja ofan á það sem við gerðum í fyrri hálfleik en Keflavík er með gott lið og þeir fóru að berja frá sér og komu til baka en hrós á okkur fyrir að slá frá okkur og klára þetta með sæmd.“
Jóhann var afar ánægður með fjórða leikhluta Grindavíkur þar sem liðið fann sama takt og í fyrri hálfleik sem skilaði að lokum sigri.
„Við settum stór skot ofan í. Daniel Mortensen er mjög góður og hann er töluvert betri en í fyrra og gerði vel í kvöld og það var það sem skóp þennan sigur.“
Aðspurður út í hvort Grindavík hafi verið að senda einhver skilaboð með þessum sigri á heimavelli Keflavíkur sagði Jóhann að svo væri ekki.
„Ég veit það nú ekki. Það eru ekki einu sinni komin jól og við erum að fara aftur í Reykjanesbæ næsta fimmtudag þar sem við mætum Njarðvík,“ sagði Jóhann Þór að lokum.