Könnun á Alþjóða knattspyrnusambandsins á fýsileika sumarmóts á Arabíuskaganum leiddi það í ljós að langlíklegast sé að keppnin fari fram frá október til apríl en ekki um sumar. ESPN segir frá.
FIFA mun tilkynna það 11. desember næstkomandi hvar heimsmeistaramótin 2030 og 2034 fari fram.
Það er þó verst geymda leyndarmál fótboltaheimsins. Spánn, Portúgal og Marokkó halda 2030 mótið sem byrjar þó með leikjum í Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ en 2034 mótið fer fram í Sádi-Arabíu.
Sádi-Arabía verður önnur arabíska þjóðin til að halda HM á eftir Katar. Keppnin í Katar fór fram i nóvember og desember árið 2022 eins og frægt er.
Þá þurftu menn að gera meira en mánaðarhlé á evrópsku deildunum og svo verður væntanlega líka raunin eftir tíu ár.
Sádi-Arabía fékk annars 419,8 stig af 500 stigum í úttekt FIFA þrátt fyrir bága stöðu í mannréttindamálum í landinu.
Þar kom fram að það muni taka tíma að bæta mannréttindi í landinu en það að halda heimsmeistaramótið muni hjálpa til að bæta stöðu mannréttinda í Sádi-Arabíu.