Handbolti

Arnar Birkir fór á kostum í sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnar Birkir var markahæsti maður vallarins í dag.
Arnar Birkir var markahæsti maður vallarins í dag. Vísir/Vilhelm

Arnar Birkir Hálfdánsson átti sannkallaðan stórleik er Amo HK vann fimm marka sigur gegn Skovde í sænska handboltanum í dag, 34-29.

Arnar Birkir og félagar höfðu yfirhöndina frá upphafi til enda og náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik. Gestirnir náðu hins vegar vopnum sínum fyrir hlé og munurinn á liðunum var aðeins tvö mörk þegar flautað var til hálfleiks, staðan 17-15.

Í síðari hálfleik héldu heimamenn í Amo gestunum einu til tveimur mörkum frá sér framan af. Þegar leið á hálfleikinn náðu heimamenn loksins að slíta sig frá gestunum frá Skovde og unnu að lokum fimm marka sigur, 34-29.

Arnar Birkir var markahæsti maður vallarins með níu mörk fyrir Amo, sem nú situr í 12. sæti deildarinnar með átta stig eftir 12 leiki, fimm stigum minna en Skovde sem situr í áttunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×