Handbolti

„Þær eru svo­lítið þyngri“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ágúst var tekinn tali í keppnishöllinni í Innsbruck fyrir leik kvöldsins.
Ágúst var tekinn tali í keppnishöllinni í Innsbruck fyrir leik kvöldsins. Vísir/VPE

„Þetta leggst bara vel í mig. Við erum búnar að hvíla vel núna og undirbúa liðið vel. Mér finnst stelpurnar mjög stemmdar,“ segir aðstoðarlandsliðsþjálfarinn Ágúst Jóhannsson fyrir leik kvennalandsliðs Íslands við Úkraínu á EM í Innsbruck.

Ísland tapaði naumlega fyrir Hollandi í fyrsta leik. Hollenska liðið spilar hratt en aðeins öðruvísi leik má búast við í kvöld. Á meðan Ísland reyndi að hægja á hollenska liðinu á föstudag má gera ráð fyrir að stelpurnar okkar reyni að keyra hraðann upp gegn hægara úkraínsku liði.

„Já. Það er það. Þær eru svolítið þyngri og við ætlum að reyna að keyra svolítið meira á þær en við gerðum gegn Hollandi. Þær eru oft seinar til baka. En við þurfum að sýna góða frammistöðu til að ná í tvo punkta,“ segir Ágúst.

En skapar það meiri pressu að hafa staðið sig svo vel gegn toppliði Hollands í fyrsta leik?

„Við svo sem reynum bara að undirbúa okkur eins vel og við getum. Við tökum margt gott með okkur úr síðasta leik og ég er sannfærður um það að spennustigið er gott og vonandi rétt stillt. Með góðri frammistöðu er ég viss um það að við náum að vinna okkar fyrsta leik á EM,“ segir Ágúst.

Leikur kvöldsins hefst klukkan 19:30 og verður lýst beint á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×